151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

störf þingsins.

[13:21]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Augu landsmanna og fólks um heim allan beinast núna að Grindavík, að Fagradalsfjalli, að Geldingadal þar sem er eldgos. Ég hef kallað hraunið sem þar er að myndast Fagrahraun af því að það er um margt fagurt. Jú, öllum finnst það fallegt og fólk flykkist þangað núna til að skoða það. Og það er mjög fallegt. Við vitum ekki enn hvort það verður hraundyngja eða hvernig það mun þróast, það verður að koma í ljós. Það er líka eitthvað fagurt við að allir geti komið og skoðað hraunið og að það ógni ekki innviðum hér eða lífi og heilsu fólks. Ég finn að það skapaði vissan létti hjá okkur Grindvíkingum þegar jarðskjálftarnir hættu og einhver niðurstaða kom í þá atburðarás sem verið hafði. Ekki er þar með sagt að þetta skapi ekki áfram miklar áskoranir fyrir almannavarnir og viðbragðsaðila, fyrir sveitarfélagið og fyrir landeigendur.

Ég vil þakka öllum þessum aðilum fyrir hversu hratt og vel og örugglega þeir hafa brugðist við, fyrst og fremst til að tryggja öryggis fólks en líka til að leyfa fólki að upplifa þennan mikla og merkilega atburð. Sumir kalla eftir því að göngustígar séu lagðir, plön jafnvel malbikuð og allt gert klárt. En þetta tekur tíma og að mörgu þarf að hyggja. Ég held að við eigum bara að fagna því hversu röggsamlega fólk hefur gengið fram og gefa því næði og tíma til að halda áfram að skipuleggja þetta þannig að allir geti komið, tryggt öryggi sitt og fengið að upplifa þá miklu sýn sem þarna er.