151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

störf þingsins.

[13:30]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun síðar í dag. Mig langar að grípa tækifærið og minna okkur á nokkrar staðreyndir. Í fyrsta lagi er atvinnuleysi í hæstu hæðum, sem er auðvitað óásættanlegt. Það er líka rétt að minna okkur á að hér hefur atvinnuleysi aukist meira frá því að Covid hófst en hjá nokkru öðru landi innan OECD. Verðbólga er hæst hér af öllum Evrópuríkjum. Það eru helst Ungverjar sem keppa við okkur um það. Þetta eru ekki góð teikn.

Þá vil ég líka benda á að gengi krónunnar sveiflast til og frá. Fyrir sléttum tveimur árum var gengisvísitalan um 178 stig, fór hæst í 214 stig í september í fyrra, var í gær 193 stig. Ég veit ekki hvað hún er í dag en ég sá að gengið er að hreyfast til. Á mannamáli þýðir það að ísskápur sem kostaði 178.000 kr. fyrir tveimur árum kostaði 214.000 fyrir ári síðan en kostaði í gær 193.000 kr. Sveiflan í þessu litla dæmi sýnir að sá sem keypti á versta tíma borgaði 36 þúsundum meira en sá sem keypti á besta tíma. Mismunurinn er hvorki meira né minna en 20%. Svona leikur krónan sér að heimilunum.