151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[16:20]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að mynda góða og öfluga menntastefnu og í menntakerfinu eru margar áskoranir sem er mikilvægt að taka á, og skiljanlegt að ekki er kannski hægt að orða þær allar beint í svona víðtækri stefnu. Ég fagna þó þeirri miklu umræðu og þeirri miklu áherslu sem nefndin leggur á stöðu ungra drengja í menntakerfinu og að sú umræða fari fram. Það er gríðarlega mikilvægt að Alþingi sendi slík sterk skilaboð með þessari stefnu og ég tel ekki annað hægt en að framkvæmdarvaldið fylgi þeim skilaboðum eftir þegar þessi stefna verður samþykkt og ég legg áherslu á að svo verði.