151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rakti það í máli mínu að við hefðum gert betur en allar spár gerðu ráð fyrir þegar árið 2020 var gert upp. Sú spá sem við höfum í höndunum í dag, um atvinnuleysi til framtíðar, er stærsta efnahagslega áskorun okkar. Það er alveg skýrt. Þess vegna þurfum við að marka skýra stefnu, renna traustum stoðum undir hana svo að við getum unnið niður atvinnuleysið sem er í þjóðhagsspánni frá Hagstofunni.

Í raun og veru snýst áætlunin einmitt um það að leysa úr læðingi þá krafta sem geta tryggt að fyrirtækin geti sótt fram, t.d. á sviði ferðaþjónustunnar þar sem bróðurpartur alls atvinnuleysis á Íslandi á rætur sínar, að ferðaþjónustan geti sótt fram. Þess vegna höfum við verið að standa með þeim fyrirtækjum, hjálpa þeim að komast í skjól, leggjast í híði, halda þeim á lífi í gegnum tekjustyrki og viðspyrnustyrki og svo tekjufallsstyrki og viðspyrnustyrki o.s.frv. þannig að um leið og birtir til að nýju þá sé einhver viðspyrna þarna.

Í þessum skilningi, í þessu samhengi, þá er það ekki stefna ríkisstjórnarinnar að atvinnuleysi verði eins og hagspáin gerir ráð fyrir heldur þvert á móti. Við ætlum að skora þessa spá á hólm með efnahagsáætlun okkar og stefna að því að gera betur, að veita svigrúm, nota sjálfvirku sveiflujafnarana til fulls, ekki fara í skattahækkanir þó að tekjurnar lækki, sækja fram með ný útgjöld og fjárfesta í framtíðinni þrátt fyrir að við séum komin í halla og vera með trúverðuga áætlun um það hvernig við lokum hallanum vegna þess að ella fáum við ekkert aðgengi að lánsfjármagni. Þetta eru lykilaðgerðirnar í átt að því að sigrast á atvinnuleysinu, að fjárfesta í nýsköpun, leysa úr læðingi krafta sem munu tryggja verðmæt störf til framtíðar. Árangur í sóttvörnum er hluti af þessu vegna þess að hann skiptir máli fyrir framtíð ferðaþjónustunnar í landinu.