151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við horfum bara á bætur almannatrygginga vegna ellilífeyris erum við að verja í ár u.þ.b., og ég hygg að það sé rúmlega, 10% af öllum tekjum ríkissjóðs einmitt í þann málaflokk. Svo skulum við tala um þá sem eru örorkumegin í almannatryggingakerfinu og við slögum hátt í sömu fjárhæð. Það er ekki hægt að segja að þetta séu lágar fjárhæðir í neinu samhengi. Við getum verið stolt af því ótrúlega sterka velferðarneti og þéttriðna sem við höfum byggt upp á Íslandi. Það sem ég er einfaldlega að benda á er að til þess að geta risið undir þessu verða að verða til í samfélaginu einhver verðmæti. Pólitík okkar gengur einmitt út á það að trúa á frelsið, lágmarksríkisafskipti, lægri skatta, hvetjandi umhverfi, vera bjartsýn þannig að fólk sjái tilgang í því að láta til sín taka og hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd. Það mun á endanum skapa ríkissjóði tekjur til að gera betur við þessa hópa. Mér er ekki ljóst annað (Forseti hringir.) en að hv. þingmaður vilji einfaldlega auka ríkisútgjöldin í þennan hóp og ég bendi bara þá á að við erum með 40% halla af tekjum á ríkissjóði á þessu ári.