151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég sagði áðan í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra að fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar væri ekki til þess fallin að blása þeim þúsundum Íslendinga sem eru atvinnulausir von í brjóst. Ég stend við það. Það er að mínum dómi ekki verið að nota ríkisfjármálin til að fjölga störfum í gegnum einkaframtakið eins og æskilegt er undir þessum kringumstæðum. Svo mikið atvinnuleysi, sem verður í lok tímabilsins um 4,5 eða 4,7%, er allt of hátt og er nú um stundir mjög hátt og reynist þjóðinni mjög dýrt og kostnaðarsamt svo ekki sé talað um andlega þáttinn.

Ég vil reyndar benda á það, herra forseti, að það virðist vera sem atvinnuleysistölur í fjármálaáætlun nú séu tölur um skráð atvinnuleysi en ekki mælt atvinnuleysi eins og Hagstofan birtir sínar tölur, t.d. í töflu á bls. 162 hér í áætluninni er atvinnuleysi sagt vera 9,2% á þessu ári og 4,7 í lok tímabilsins, en í Hagstofuspánni eru þeir með 7,8% atvinnuleysi fyrir 2021, svo að því sé haldið til haga.

Ég nefndi það líka í andsvari áðan að ríkisstjórnin hefur ekki verið að setja þá fjármuni í úrræði sem hefðu verið æskilegir til að draga úr atvinnuleysinu og reyna að búa til störf í gegnum einkaframtakið. Ég nefndi Bandaríkin áðan, þar er búið að setja 1,8 millj. kr. á hvert mannsbarn í Bandaríkjunum í aðgerðir sem m.a. lúta að því að fjölga störfum. En hér er búið að setja að mér telst til 540.000 kr. á hvern Íslending og það er því verið að skera við nögl. Það verður bara að segjast eins og er.

Herra forseti. Hversu mikinn tíma hef ég? Tíminn hefur eitthvað skolast til, er rétt að það séu sjö mínútur eftir? Er það ekki frekar lítið? Ef herra forseti skoðar það fyrir mig.

Þessi áætlun tekur ekkert á því hvað tekur við þegar aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar renna út núna í maí og fólk fer þá væntanlega á atvinnuleysisskrá. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt það í umræðunni að staðan sé að batna mjög hratt en ég verð að segja það, herra forseti, að það er ekki ríkisstjórninni að þakka vegna þess að það er einkum einkaneyslan og íbúðafjárfestingin sem gerir það að verkum að staðan er betri núna en menn gerðu ráð fyrir og það er líka rétt að halda því til haga.

Kjarni málsins er sá að hér höfum við ríkisstjórn sem er að fara inn í kosningar með þúsundir Íslendinga atvinnulausar og fjármálaáætlun sem í raun og veru gerir ekkert til að vinna gegn því. Og þetta er að sjálfsögðu mjög athyglisvert í aðdraganda kosninga. En ég segi að þessi áætlun er metnaðarlaus og hún er kjarklaus vegna þess að það er ekki verið að stíga þau skref sem þarf að gera nægilega til að nota ríkisfjármálin til að vinna á þessum alvarlega vanda. Það er miklu frekar að þetta snúist um að sníða áætlunina að skuldahlutfalli árið 2026, að það verði undir 60% og annað til, sníða hana í áttina að þessari niðurstöðu þrátt fyrir að hér sé metatvinnuleysi og stærsta atvinnugrein þjóðarinnar í gjörgæslu. Svo má líka segja að í áætluninni séu gefin vilyrði fyrir ýmsum fjárfestingum sem síðan er engin innstæða fyrir. Það er t.d. þjóðarleikvangurinn sem við þekkjum, það er ekki ein einasta króna í hann í þessari áætlun. Þannig er að finna innihaldslausar yfirlýsingar í þessu.

Ríkisstjórnin talar um að hún hafi eytt svo miklu í aðgerðir vegna faraldursins en hins vegar tala tölurnar öðru máli. Það er verið að setja of litla fjármuni í það að vinna gegn þessu alvarlega atvinnuleysi. Ríkisstjórnin hamrar einmitt stöðugt á því að það sé aukning í nýsköpun, allt að 70%, en hún er bara ekki að skila því sem hún á að skila og við höfum ekki séð neinar áætlanir um það hvaða árangri hún hefur skilað. Og það er óraunhæft, herra forseti, ég kom inn á það áðan, að gera ráð fyrir því að hingað komi 2 milljónir ferðamanna árið 2022 og 2023, á næstu tveimur árum. Þó að maður vilji að sjálfsögðu vera bjartsýnn verða menn að vera raunsæir í þessum efnum. Staðan í faraldrinum í kringum okkur er með þeim hætti og svo eru þær fréttir sem bárust í dag alls ekki góðar hvað þetta varðar.

Ég nefndi það áðan að atvinnuleysið er allt of hátt í lok tímabilsins og síðan er rætt hér um að ráðast í afkomubætandi ráðstafanir, eins og það er nefnt í áætluninni. En ekki er gerð grein fyrir því með hvaða hætti það er gert og það er augljóst að ríkisstjórnin vill náttúrlega ekki sýna á spilin í þeim efnum í aðdraganda kosninganna. Þá verður væntanlega að fara í niðurskurð upp á einhverja tugi eða yfir 100 milljarða kr. til að ná þessu margumtalaða skuldahlutfalli sem ríkisstjórnin vill ríghalda í. Gleymum því ekki að við erum með eitt lægsta skuldahlutfall af vestrænum löndum og það á að gefa okkur svigrúm til þess að reyna af fremsta megni að draga úr þessu alvarlega atvinnuleysi. Eins og ég nefndi áðan er ráðherrann nokkuð ánægður með það að samdráttur hafi verið upp á 6,6% af landsframleiðslu á síðasta ári. En það eru heimilin sem hafa verið að skuldsetja sig og eyða sínum sparnaði og það er íbúðafjárfestingin, eins og ég nefndi, sem hefur gert það að verkum að ekki fór eins illa og menn héldu og gerðu ráð fyrir.

Ég verð að koma aðeins inn á það sem mér finnst skipta verulegu máli í þessu en það er vaxtaumhverfið. Fjármálaáætlunin endurspeglar það að hér sé áfram lágt vaxtaumhverfi og það held ég að sé bara ekki raunhæft, herra forseti. Það er áhyggjuefni hvers vegna við getum ekki fjármagnað okkur meira innan lands í þessum efnum því að það er betra að skulda í eigin mynt heldur en að taka inn gengisáhættuna. Síðan er það sem snýr að árangurstengingunni, hagkvæmni og skilvirkni, sem er mjög mikilvægt. Það er athyglisverður kafli hér í áætluninni, sem ég vil fagna, á bls. 138 þar sem rætt er um starfsemi hins opinbera, að hún hafi árangur að leiðarljósi. Þetta er ákaflega mikilvægur kafli sem ég hvet þingmenn til að lesa vegna þess að auðvitað er þetta það sem á að skipta mestu máli, að við getum mælt hver árangurinn er með gagnsæjum hætti í umsvifum ríkissjóðs og að við séum að nýta þessa peninga sem allra best. Þetta er umræða sem er svo sannarlega mikilvæg og nauðsynlegt að taka.

Ég sé að tíminn líður hratt og ég held að það sé eitthvað dularfullt með þessa klukku, herra forseti, hvernig hún er stillt en látum það liggja milli hluta. Í þessari áætlun er rakið hver rekstrarhalli er og annað slíkt sem ég ætla ekki að endurtaka hér, en það er eitt sem þarf að liggja nokkuð ljóst fyrir og það er með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að bregðast við ef þessi veirufaraldur dregst á langinn. Það er lagt upp með að dregið verði hratt úr þessum sértæku stuðningsaðgerðum á árinu 2027 samhliða því að fyrirtækin geti staðið á eigin fótum. Og svo höfum við bólusetningaráætlun ríkisstjórnarinnar sem verður áfram undir hælnum á Evrópusambandinu með tilheyrandi töfum. Allt getur þetta haft áhrif sem þarf að liggja fyrir í þessari áætlun. Síðan komum við einnig að verðbólguhorfunum sem hafa versnað frá síðustu þjóðhagsspá og er búist við að einkaneysla muni aukast um 2,3% í ár en síðan meira á næsta ári. Þá er spáð kröftugum vexti opinberra fjárfestinga í ár. Að sjálfsögðu vonum við að þetta allt saman rætist.

Ég hefði viljað fá meiri og ítarlegri umræðu, og vonandi getum við gert það innan fjárlaganefndar, um þessa árangursmiðuðu fjárlagagerð sem er svo mikilvæg, sem sagt hvaða árangri fyrri fjárveitingar hafa skilað. Liggur það t.d. fyrir hvaða árangri aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar hafa skilað? Nei, ég get ekki séð að við höfum fengið nægilega árangursmælingu hvað það varðar og almenningur á að sjálfsögðu (Forseti hringir.) að geta treyst því að almannafé sé nýtt með skynsamlegum hætti. En ég kem að sjálfsögðu inn í umræðuna í síðari umræðu. Ég verð að segja það að (Forseti hringir.) þessi áætlun veldur mér vonbrigðum, herra forseti, og ég mun að sjálfsögðu fara nánar yfir það í síðari umræðu.