151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þau málefnasvið sem falla undir mitt verksvið eru nr. 12, 13 og að hluta 7, 16 og 21. Helstu fjárhagsstærðir varðandi landbúnaðinn eru um 17,7 milljarðar kr. árlega og u.þ.b. 8,5 milljarðar á sviði sjávarútvegs og fiskeldis. Stærstu breytingarnar á fjárhæðum á áætlunartímabilinu snúa að byggingu nýs hafrannsóknarskips, en einnig fellur út tímabundið framlag til landbúnaðar vegna Covid-19. Að öðru leyti eru ekki stórvægilegar breytingar á útgjaldarömmum einstakra viðfangsefna. Engu að síður eru gríðarlega miklar breytingar fram undan á þessum málasviðum á komandi árum. Það er augljóst af öllu því sem upp snýr og fram vindur að miklar breytingar munu eiga sér stað í umhverfi þessara greina, m.a. hvernig þær munu leggja sitt af mörkum til þjóðarbúsins. Fjármálaáætlun og þær áætlanir sem liggja fyrir á viðkomandi málefnasviðum taka ágætlega á þessum breyttu áherslum og leiðir það ágætlega í ljós hvernig við ætlum að taka á í þeim efnum.

Búið er að ljúka endurskoðun allra búvörusamninga. Þar voru gerðar talsverðar breytingar á starfsskilyrðum landbúnaðarins, m.a. með ráðstöfunum sem stuðla að auknu jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir, blásið var til stórsóknar í garðyrkju og fallið var frá afnámi framleiðslustýringar í mjólkurframleiðslu. Í öllum samningunum er nú rík áhersla á loftslagsmálin og hafa bændur og stjórnvöld sameinast um þá skýru framtíðarsýn að íslenskur landbúnaður verði að fullu kolefnisjafnaður árið 2040. Þá verður innan skamms kynnt sérstakt mælaborð landbúnaðarins þar sem settar verða fram skýrar og aðgengilegar upplýsingar um landbúnaðarframleiðsluna hér á landi. Þetta verkefni mun auka gegnsæi og veita skýra yfirsýn um framleiðsluna m.a. og bæta þannig stefnumótun í málaflokknum.

Ég hef sömuleiðis sett fram aðgerðaáætlun í 12 liðum til að styrkja stoðir íslensks landbúnaðar í ljósi þeirra beinu og óbeinu áhrifa sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á greinina. Í fjárlögum fyrir árið 2021 var samþykkt að verja 970 millj. kr. til að koma til móts við bændur vegna faraldursins og liggur nú fyrir útfærsla hvernig þeim fjármunum verður ráðstafað. Þar er sérstaklega horft til sauðfjárbænda þar sem 700 millj. kr. er varið til viðbótargreiðslna inn í þá grein og 243 millj. kr. til nautgriparæktarinnar. Ég vil sömuleiðis nefna nýstofnaðan Matvælasjóð sem hefur það hlutverk að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Við leggjum inn í þennan nýja sjóð um 750 millj. kr. á árunum 2021–2023. Ég tel þennan sjóð mikið framfaraskref fyrir íslenskan landbúnað og sjávarútveg og tel að starfsemi hans muni stórefla nýsköpun á sviði matvælaframleiðslu hér á landi.

Stefnur og straumar á alþjóðlegum vettvangi stýra sjávarútvegi og fiskeldi í talsverðum mæli. Til að selja afurðir á alþjóðlegum mörkuðum er grundvallaratriði að hafa vottun og halda henni. Þetta er gríðarlega mikilvægt þegar haft er í huga að 98–99% af afla okkar fer á erlenda markaði þar sem samkeppni er gríðarlega hörð. Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein. Þar má nefna að á þessu ári má gera ráð fyrir að útflutningsverðmæti þess verði á bilinu 25–30 milljarðar kr. En á síðasta ári voru útflutningsverðmæti alls þorsks sem við fluttum út um 130 milljarðar kr. Af þessu má sjá að fiskeldið vex mjög hratt og er raunar þegar orðin mikilvæg útflutningsgrein.

Ég vil nefna það hér að við höfum sömuleiðis sett fram fyrstu matvælastefnu fyrir landið og markvisst unnið að því að auka vægi verkefna matvæla og fæðuöryggis. Í tengslum við veiruna höfum við enn fremur lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Við höfum verið að vinna mjög ákveðið og einbeitt í þeim efnum á grunni aðgerðaáætlunar um að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Landbúnaðarháskóli Íslands vann fyrir okkur skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi sem kom út fyrr á þessu ári, en hún verður lögð til grundvallar þeirri vinnu sem unnin er á vegum þjóðaröryggisráðs á þessu mikilvæga sviði.

Ég vil í lokin nefna að síðastliðið haust kynnti ég áætlun um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Það er ánægjulegt að geta greint frá því nú að þegar hefur verið ráðið í störf á sviði stjórnsýslu fiskeldismála á landsbyggðinni, nánar tiltekið á Vestfjörðum og Austurlandi. Þá hefur Hafrannsóknastofnun ráðið í tvö ný störf, í Neskaupstað og í Ólafsvík. Auk þess hefur verið gerður samningur við Matís um þrjú ný störf á landsbyggðinni. Þá hefur störfum í höfuðstöðvum Fiskistofu á Akureyri fjölgað jafnframt því sem fækkað hefur í Hafnarfirði. Áfram verður unnið gegn þessum vanda því að hallað hefur á landsbyggðina í þessum efnum, en við höfum séð það núna, bara á síðasta ári, hversu öflug uppbygging háhraðatenginga um landið hefur stytt allar vegalengdir og flestallir opinberir starfsmenn og fyrirtæki sem nýta þjónustu þeirra hafa lært mikið á þau samskipti sem þarna er hægt að nýta til að styrkja þessi störf vítt um land.