151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir yfirferðina yfir fjármálaáætlun. Það er gleðilegt, eins og fram kom í ræðu hans, að fiskeldið er í miklum vexti og framtíðin er frekar björt í þeim málum. En mig langar að spyrja ráðherrann í sambandi við hafrannsóknir. Nú er nýtt skip í smíðum. Það verður gleðilegt að taka á móti því þegar það kemur til landsins. En í sambandi við rannsóknir á hinum ýmsu fisktegundum sem við höfum tekjur af veiðum á við Íslandsstrendur, kom greinilega í ljós að rannsóknirnar skila sér. Við vorum t.d. búin að vera loðnulaus í tvö ár og síðan var farið í miklar rannsóknir af því að menn höfðu vissu fyrir því að það væri meiri loðna í hafinu. Svo kom í ljós að hægt var að fara að veiða og það voru aflaverðmæti upp á 30 milljarða þannig að sú vinna skilaði sér.

Mig langar að spyrja ráðherrann út í rannsóknir á öðrum fisktegundum, eins og ýsu, hvítlúðu, grásleppu og þar fram eftir götunum. Hvítlúðan hefur verið bönnuð í beinni veiði. Og þegar maður spyr um hvað sé að frétta þá er ekkert að frétta af því að Hafrannsóknastofnun segist ekki hafa fjármuni í að rannsaka frekar þá fisktegund eins og þeir myndu vilja. Það sama er með grásleppuna. Hún er metin eftir mælingum sem meðafli í trolli í togararalli. Ýsan sveiflast mikið á milli ára og þeir sem veiða hana og eru í kringum þessar veiðar trúa ekki mikið á þær mælingar, vegna þess að sveiflan er svo mikil á milli ára að stofnstærðarmatið er ekki mjög trúverðugt. Þá kemur upp spurningin: Megum við eiga von á meiri fjármunum í rannsóknir á t.d. þessum fisktegundum?