151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Já, ég er sammála því að fiskeldið er í sókn. Við sjáum það m.a. á þeirri staðreynd sem Fiskeldissjóður segir okkur, að framlög sveitarfélaga til uppbyggingar og styrkingar innviða þar er ráðgert að vera um rúmar 100 millj. kr. Það hefur vaxið núna á nokkrum árum upp í hátt í hálfan milljarð. Það er óumdeilt að þar koma inn fjármunir. Þegar við ræðum um hafrannsóknirnar hjá Hafrannsóknastofnun þá er það rétt, eins og hv. þingmaður nefnir hér, að við vorum að glíma við loðnuleysi. Ég er á því að viðbótarfjárveitingar sem Alþingi samþykkti inn í stofnunina núna í vetur séu í rauninni grunnurinn að þeirri vertíð sem varð síðan að veruleika, þannig að það er beint samhengi á milli þeirra verðmæta sem þarna voru dregin að landi og þeirrar fjárveitingar sem lögð hefur verið í stofnunina á undanförnum árum. Við höfum — ég segi ekki árlega, en við höfum lagt núna á undanförnum árum verulega fjármuni gagngert inn til stofnunarinnar með það að meginmarkmiði að styðja við uppsjávarfiskarannsóknir.

Hv. þingmaður nefnir ýsu, hvítlúðu og grásleppu sem dæmi um stofna þar sem þekkingu okkar er ábótavant. Vissulega er það hárrétt að þekkingin er gloppótt, sérstaklega varðandi grásleppu. Sömuleiðis er stofnstærðarmatið á ýsu dapurt. Í þeirri áætlun sem við ræðum hér höfum við ekki gert ráð fyrir vexti í einstökum málaflokkum, alls ekki. Við gerum ráð fyrir því að rammarnir eins og þeir hafa verið í síðustu fjármálaáætlun haldi sér. Við erum hvorki að ræða uppbætur né niðurskurð heldur bara framreiknaða ramma sem þá giltu. Það þýðir að stofnun eins og Hafrannsóknastofnun, eins og aðrar stofnanir sem eru á fjárlögum, verður að forgangsraða þeim verkum sem hún vinnur með á grundvelli þeirra fjárveitinga sem Alþingi setur til hennar hverju sinni. En það eru ekki neinar sérmerktar fjárveitingar í þessa stofnun, enda verður það að vera hlutverk vísindafólksins okkar að forgangsraða þeim rannsóknum sem þarna eru undir.