Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

lækkun tolla og gjalda á innfluttar matvörur.

187. mál
[19:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Matarkarfan skiptir höfuðmáli fyrir þá sem minnst hafa. Öryrkjar og þeir sem eru á lægstu launum og bótum, sem eru jafnvel undir fátæktarmörkum, fyrir þá skiptir mestu máli að eiga fyrir mat eftir að viðkomandi hefur gert allt sem hann getur til þess að eiga fyrir húsaleigu. Okkur ber skylda til að sjá til þess að fólk hafi nægt fé handa á milli til að kaupa sér matvæli. Þegar matvælin eru orðin þetta dýr og við sjáum þessar gífurlegu hækkanir sem koma núna vegna verðbólgunnar þá ber ríkisstjórninni skylda til að sjá til þess með öllum ráðum að lækka matarverð og, ef það dugir ekki, að sjá til þess að þeir sem verst hafa það eigi fjármuni til þess að kaupa mat.