Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

tekjuskerðingar almannatrygginga.

673. mál
[19:30]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður spyr í fyrsta lagi hversu miklar skerðingar á tekjum öryrkja vegna fjármagnstekna hafi verið síðustu fimm ár. Er því til að svara að áhrif tekjuskerðinga vegna fjármagnstekna til lækkunar á örorkulífeyri, aldurstengdri örorkuuppbót, tekjutryggingu, heimilisuppbót og sérstakri framfærsluuppbót síðastliðin fimm ár eru þannig að þær voru 739 millj. kr. árið 2018, 679 millj. kr. árið 2019, 569 millj. kr. árið 2020 og 639 millj. kr. árið 2021, þ.e. þetta er svona að meðaltali rétt rúmlega 650 millj. kr. árlega. Áætlun fyrir árið 2022 gerir ráð fyrir að upphæðin verði um 450 millj. kr. en miðað við reynslu síðustu ára má búast við að sú tala geti hækkað. Hér skal áréttað að eingöngu er verið að miða við örorkulífeyrisþega hjá Tryggingastofnun ríkisins með gilt örorkumat en ekki aðra hópa, t.d. endurhæfingarlífeyrisþega.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hver skerðingarhlutföll fjármagnstekna vegna laga um félagslega aðstoð annars vegar og vegna laga um almannatryggingar hins vegar séu. Skerðingarhlutfall fjármagnstekna það er hið sama og annarra tekna og kemur fram í lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Hvað varðar lög um almannatryggingar þá eru skerðingarhlutföllin fyrir ellilífeyri 45%, fyrir örorkulífeyri 9%, fyrir örorkustyrk 9%, fyrir aldurstengda örorkuuppbót 9% og fyrir tekjutryggingu 38,35%. Þegar við horfum til skerðingarhlutfalla samkvæmt lögum um félagslega aðstoð þá eru þau eftirfarandi: Fyrir endurhæfingarlífeyri 9%, líkt og fyrir örorkulífeyrinn, fyrir heimilisuppbót ellilífeyrisþega 11,9% og fyrir heimilisuppbót örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega 12,96%. Eins og á þessu má heyra eru skerðingarhlutföllin mismunandi og margvísleg og það er eitt af því sem heildarendurskoðun á þessum lögum er ætlað að taka á. Ég sé að hv. þingmenn brosa í kampinn þegar maður les upp allar þessar tölur hér sem eru svo margar og mismunandi en það er kannski akkúrat það sem hefur gerst á undanförnum árum að kerfið hefur orðið flóknara.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður hvort ráðherra hafi athugað hvort draga megi úr skerðingum á fjármagnstekjum öryrkja til að auðvelda öryrkjum að safna fyrir útborgun í eigin húsnæði og ef svo er, hvenær búast megi við tillögum í þessum málum og með hvaða hætti. Jafnframt spurði hv. þingmaður hvort hætta ætti skerðingum. Til að svara því vil ég segja að það er auðvitað unnið að þessari heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu í ráðuneytinu hjá mér þar sem við erum að stefna að því að draga úr tekjutengingum, gera kerfið skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Meðal þeirra atriða sem við erum að skoða er að í stað sérstaks frítekjumarks vegna lífeyrissjóðstekna og fjármagnstekna verði sett almennt frítekjumark sem gert er ráð fyrir að nýtist þá öryrkjum betur en frítekjumörk samkvæmt núgildandi lögum.

Kannski rétt aðeins um það hvort það eigi að hætta skerðingum eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að almannatryggingakerfið sé til þess að grípa fólk sem ekki getur séð fyrir sér sjálft á vinnumarkaði og til þess er þetta afskaplega mikilvægt kerfi. Þetta er öryggisnet. Þannig að fólk á vinnumarkaði sem nýtur fjármagnstekna er ekki endilega fá aðstoð frá ríkinu, alla vega ekki með sama hætti og þau sem nýta sér almannatryggingakerfið. Kerfið gengur út á það að aðstoða þau sem geta ekki séð sér farborða með atvinnutekjum. Að því leytinu til tel ég skerðingar almennt séð vera eðlilegar upp að ákveðnu marki. En þær mega aldrei vera þannig að þær dragi of mikið úr hvata fólks til að fara út á vinnumarkaðinn, eins og við hv. fyrirspyrjandi höfum margoft rætt hér í sölum Alþingis, og þær þurfa að geta stutt til eðlilegrar virkni, hvort sem er á vinnumarkaði eða utan hans.