154. löggjafarþing — 73. fundur,  15. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[13:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar farið er yfir samráðskaflana þá eru hérna önnur atriði sömuleiðis, eins og þegar talað er um að æskilegt væri að heimila flutning á veðlánum yfir á aðra fasteign, sem ég lagði áherslu á að yrði gert ef það væri hægt. Útfærslan á málinu er þannig að ríkið geri það ekki en niðurstaðan verður að fólk muni geta óskað eftir því við sinn viðskiptabanka. Það mun þá hafa jákvæð áhrif fyrir þann hóp, sérstaklega fyrir þann sem er með lán á föstum vöxtum í einhvern tíma fram undan. Sömuleiðis það sem ég nefndi áðan varðandi tvö árin frá því að atburður hófst og frá því að viðkomandi selur félaginu húsnæði sitt, þar er bætt inn í frumvarpið ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að taka skuli afstöðu til þess áður en sá tími líður hvort lengja eigi hann. Það getur verið að náttúran verði búin að svara þessari spurningu fyrir okkur fyrir þann tíma á hvorn veginn sem er, annaðhvort að það verði orðið rólegt og þá þurfi það ekki eða þá að ekki þurfi að taka afstöðu til þess vegna þess að náttúran hefur náð sínu fram. Sömuleiðis voru umsagnir um að einn eigandi hafi átt lögheimili í húsnæðinu en svo er kannski einhver annar sem býr þar sem ekki er með lögheimili. En það er tekið sérstaklega fram að nægilegt sé að það sé einn, þannig að þótt einhver annar búi þar líka og hann sé ekki með lögheimili þar þá getur það samt fallið undir frumvarpið.

Ég geri mér fulla grein fyrir því og hef gert allan tímann að svona mál er gríðarlega flókið og viðkvæmt og fólk sem hefur orðið fyrir áfalli og er ekki bara með fjárhagsáhyggjur heldur er að syrgja sinn griðastað í sínu samfélagi og lífið sem það sá fyrir sér um komandi og mögulega alla framtíð — í svona máli þar sem þú ert að reyna að loka mengi og mæta þeim aðstæðum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum verða ekki allir sáttir. Ég er hins vegar ekki sammála hv. þingmanni að það sé ekki almenn ánægja eða almennur léttir eða skilningur á því að markmiðunum sem við settum okkur sé náð í þessu. (Forseti hringir.) En ég hef allan tímann verið mjög heiðarleg með það að við náum ekki að bæta allt það tjón sem þetta fólk hefur orðið fyrir. Því hef ég ekki lofað heldur hef ég verið mjög ærleg í því að það er óraunhæft. (Forseti hringir.) En þessi rammi er gríðarlega mikilvægur fyrir þetta fólk.