154. löggjafarþing — 73. fundur,  15. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[13:58]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegur forseti. Fáa hefði grunað að við hér á Alþingi værum að fara að flytja frumvarp þennan veturinn um uppkaup ríkisins á heilu sveitarfélagi, 1.200 íbúðum, húsum. En náttúran hefur sýnt okkur hversu öflug hún er og að það er hún sem ræður. Þá er mikilvægt að við sem hér á Alþingi sitjum stöndum saman í því að gefa Grindvíkingum valkost um að flytja annað og að tryggja það sem segir í upphafi markmiðskafla frumvarpsins, með leyfi forseta, „að verja fjárhag og velferð íbúa í Grindavíkurbæ“. Það er nefnilega óvissan um það hvað muni gerast, hversu lengi þessir atburðir munu standa sem skapar mikla og erfiða tíma fyrir þá sem þarna búa. Það hefur því verið mjög ánægjulegt að sjá hvernig við sem þing höfum komið saman og staðið þverpólitískt að því starfi að tryggja það að Grindvíkingar losni við þessa óvissu sem allra fyrst.

Það er margt sem hægt er að segja að gæti kannski farið betur og eflaust er endalaust hægt að rífast um það hvað sé réttlátt verð fyrir húsnæðið, en við vonum að við höfum náð að koma okkur saman um viðmið sem allir geta á endanum sætt sig við. Það verður samt alltaf þannig að það verður tap fyrir Grindvíkinga. Þá er ég ekki bara að tala um fjárhagslegt tap, sem verður eitthvað, heldur líka hið samfélagslega og sálræna tap sem þau svo sannarlega verða fyrir.

Það er einnig mikilvægt að við þökkum þetta góða samstarf. Það er ekki of oft, því miður, innan þessa þings sem þverpólitískt er hægt að ná jafn góðri samvinnu. Þar eru það hæstv. ráðherra og, sem mig langar sérstaklega að taka fram, starfsfólk fjármálaráðuneytisins sem hefur unnið þrekvirki við að koma saman svo flóknu frumvarpi á jafn stuttum tíma.

Nú er komið að því að þetta frumvarp komi til okkar í þinginu til þinglegrar meðferðar. Í meðförum hv. efnahags- og viðskiptanefndar treysti ég því að horft sé áfram til þeirra 316 athugasemda sem þegar hafa borist og þeirra athugasemda sem munu berast nefndinni eftir að þetta mál er komið þar inn. Það verði skoðað hvað sé hægt að gera kannski varðandi þær athugasemdir sem ekki er fyllilega enn þá búið að svara. Ég vil þó sérstaklega benda þar á ákvæðið um lögheimili. Það er tekið fram að það eigi að vera mjög sveigjanlegt og það sé hægt að taka ákvarðanir út frá ekki alveg eins föstum skilyrðum og kannski er sagt hér í frumvarpinu. Ég held að það sé betra að það sé betur skilgreint. Það eru alls konar dæmi og ég held að það sé gott fyrir þingið og nefndina að hugsa upp þau dæmi. Við höfum dæmi um fólk sem hefur t.d. tekið saman, bæði áttu íbúð, flytja inn og börnin eru að leigja hina íbúðina. Er það ekki mikið fjárhagslegt tap annars aðilans ef allt í einu á bara að bæta húsnæðið þar sem eigendurnir búa? Við höfum líka heyrt dæmi um fólk sem hefur keypt sér íbúðir og farið í nám erlendis og er að leigja út íbúðirnar sínar en það á ekki lögheimili þar. Þetta þurfum við bara að hafa vel skrifað og tækla þessi dæmi.

Ég hef líka heyrt frá íbúa í Grindavík, eldri íbúa, sem benti á að hennar fjárfesting til ellinnar var að kaupa íbúð í Grindavík sem hún leigði út til barnanna sinna. Hún hafði miklar áhyggjur af því að hennar fjárhagur, hennar framtíð væri ekki lengur tryggð. Þannig að ég held að það sé mjög mikilvægt að við skoðum þetta með lögheimilið. Á sama tíma tengist það líka dæminu sem ég var að nefna áðan, að aðeins er greitt fyrir eitt húsnæði í sveitarfélaginu. Það er erfitt að benda á það að það sé verið að verja fjárhag Grindvíkinga ef fjárfesting einhvers einstaklings, þá er ég ekki að tala um lögaðila heldur einstakling, er ekki tryggð með þessu frumvarpi.

Það er líka vert að hafa í huga, og ég saknaði þess örlítið í frumvarpinu, að þessar aðgerðir munu hafa stórfelld áhrif á sveitarfélagið Grindavík. Það er verið að taka stóran hluta af tekjustofni þess í burtu og við þurfum virkilega að hugsa um það hvað við ætlum að gera fyrir sveitarfélagið Grindavík á þessum erfiðu tímum.

En enn og aftur langar mig sem fulltrúa í þessari samstarfsnefnd að þakka öllum samstarfsaðilunum úr öllum flokkunum fyrir virkilega gott samstarf og hæstv. ráðherra fyrir að hlusta. Það er ekki alltaf, því miður, sem er hlustað en þarna var svo sannarlega hlustað á okkur. Það er von mín að við getum nýtt reynsluna af því að vinna vel saman að svo mikilvægu máli í að vinna saman að fleiri mikilvægum málum hér á Alþingi.