133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[16:00]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Heldur fannst mér þetta vera veik vörn hjá hæstv. ráðherra ef hann ætlar að reyna að koma því yfir á Samkeppniseftirlitið, að það hafi lagt til að þessi leið væri farin. Samkeppniseftirlitið var einfaldlega að benda á að hugsanlega væri hægt að lagfæra málið, að það yrði skárra með því fyrirtæki sem þarna stendur til að búa til, til að lappa upp á mál sem var ónothæft, eins og það birtist fyrir áramót. Eftir liggur sú spurning til hæstv. ráðherra að útskýra það fyrir okkur. Hann þarf ekki að gera það í andsvari, það er hægt að fá orðið hjá hæstv. forseta. Hæstv. ráðherra getur gefið sér tíma til að fara yfir það hvernig tryggja á samkeppni með þeim hætti sem hér lagt til að verði hafður á. Ég hvet hæstv. ráðherra til að gera það.

Ég lagði aðra spurningu fyrir hæstv. ráðherra. Hún var um hvort sú tilskipun sem ég nefndi áðan, 54/EC/2003, hefði verið skoðuð og hvort verið geti að menn lendi þá í því að fá málið til baka þaðan, því það virðist vera sá vöndur sem hrífur best á hæstv. ráðherra, að menn í útlöndum rassskelli þá.