133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:54]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér í andsvar vegna orða hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur um að tillaga ríkisstjórnarinnar sé komin til vegna tillögu frá Samfylkingunni en það er nú öðru nær. Samfylkingin er alltaf að berja sér á brjóst og þakka sér að tillagan um lækkun á virðisaukaskatti sé komin frá þeim. Þessi tillaga kom inn í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar fyrir hartnær fjórum árum. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var þetta samþykkt og Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið eftir því að koma þessu á. Þetta var landsfundarsamþykkt okkar, hún kom löngu á undan tillögunni frá Samfylkingunni. Þannig er það nú.

Hv. þingmaður talaði um að íslenskar afurðir væru góðar. Ég er henni hjartanlega sammála um það, en íslenskur landbúnaður þolir ekki neinar kollsteypur. Hann þolir það ekki og ég tel að með þessum tillögum sé ríkisstjórnin að fara þá leið sem gefur landbúnaðinum tækifæri til þess að aðlaga sig að breyttum tímum.

Hvað varðar bág kjör fólks þá er það nú bara þannig að aldrei í sögu þjóðarinnar hefur orðið jafnmikil kaupmáttaraukning og síðustu ár, aldrei nokkurn tíma. Þegar verið er að bera saman mismunandi kjör fólks þá er það nú þannig að bankastjórar og þeir sem eru í háum stöðum og vinna mikið erlendis skekkja að sjálfsögðu þá mynd, af því að það er alltaf miðað við hæsta og lægsta. En ekki vildum við missa það fólk úr landi, það fólk borgar hér skatta. En ég vildi bara halda því til haga að kaupmáttur á Íslandi hefur aldrei (Forseti hringir.) vaxið eins mikið og síðustu ár.