133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[18:06]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að bændur hafi hreinlega afneitað þessu samráði við Samfylkinguna. Menn taka ekki þátt í því að leggja sjálfa sig niður eins og tillögur þeirra snerust um. Þeir komu á einhverja fundi til að uppfræða og hafa nú náð einhverjum árangri.

Hvað varðar hv. þingmenn Kristinn H. Gunnarsson og Valdimar L. Friðriksson, hvers vegna þeir eru staddir í Frjálslynda flokknum, það veit öll þjóðin. Báðir þessir menn töpuðu í prófkjörum. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson bauð sig fram gegn sitjandi ráðherra og 1. þingmanni í sínu kjördæmi og lenti í 3. sæti og hv. þm. Valdimar L. Friðriksson datt niður stigann í prófkjöri Samfylkingarinnar. Þetta eru afleiðingar af því og þarf ekki að tengja það neinu öðru. Þetta eru örlög þessara flokka. Frjálslyndi flokkurinn er mjög opinn fyrir því að taka alla að sér sem lenda í vandræðum. Það sýnir að þeir eru göfugmenni en það getur líka kallað á klofning síðar og átök eins og fylgt hefur sumum þeirra sem þeir hafa nú sett undir árar hjá sér.

Ég vil segja við hv. þingmann að Ísland er dýrt land á öllum sviðum. Ísland, Noregur og Sviss skera sig nokkuð úr. Það gerir sú velmegun sem ríkir í þessum löndum. Við getum ekki beðið um það sem Samfylkingin hefur oft verið að biðja um, spænskt matvælaverð og íslensk laun. Það liggur fyrir að þetta verður að fara nokkuð saman og Íslendingar borga sennilega hlutfallslega minna af launum sínum fyrir matvæli en mörg fátæk lönd verða að gera því að hér eru lífskjörin það góð. Svo liggur það auðvitað fyrir þegar við skoðum hvað er dýrt á Íslandi að þá eru það oft innfluttar landbúnaðarafurðir, kornið í brauðið, gosið o.fl. sem er hlutfallslega miklu dýrara hér en í Kaupmannahöfn eða annars staðar á Norðurlöndunum. (Gripið fram í.)

Við viðurkennum það þó öll hér í umræðunni að við eigum (Forseti hringir.) góðan landbúnað (Forseti hringir.) og góðar landbúnaðarafurðir og fyrir það vil ég þakka, hæstv. forseti.