135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

efni og efnablöndur.

431. mál
[16:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að það skuli loksins komið fram á Alþingi — já, nú gleymdi ég þingskjalinu. Vildi einhver vera svo vænn að koma með þingskjalið til mín? — frumvarp sem innleiðir REACH-tilskipunina frá Evrópusambandinu í íslenskan rétt. — Takk fyrir, hæstv. ráðherra.

Þetta er sem sagt frumvarp til laga um efni og efnablöndur og hefur verið beðið eftir því nokkuð lengi satt að segja og ekki bara hér heldur hjá Evrópusambandinu þar sem undirbúningur þeirrar löggjafar sem hér lítur nú dagsins ljós hefur tekið nokkuð langan tíma. Það mun hafa verið — ég þori ekki að segja hversu — ég gæti trúað að það væri áratugur sem þessi tilskipun hefur verið í vinnslu og jafnvel lengur og hún hefur farið í gegnum margar skilvindur og mikla gagnrýni og það hefur verið tekist á um hana á vettvangi Evrópusambandsins milli hagsmunaaðila sem eru þá framleiðendur ýmissa efna sem heyra undir reglugerðina og umhverfisverndarsinna.

Staðreyndin er sú að mörg þúsund kemísk efni, sem sagt efni sem eru ekki lífræn og fara misvel þess vegna í hinu lífræna umhverfi okkar og náttúru eru í almennri notkun en hafa aldrei verið prófuð með tilliti til til dæmis áhrifa sem þau gætu haft á annaðhvort heilsufar manna eða á umhverfið og lífríki náttúrunnar. Nú er það ekki svo að á þessum dögum aukinnar umhverfisvitundar hafi dregið úr framleiðslu þessara efna heldur þvert á móti, framleiðsla þessara efna virðist færast í aukana ár frá ári og þeim fjölgar æ meir efnunum sem unnin eru á þennan hátt. Nú má þó segja að nýju efnin sem framleidd eru undirgangast ákveðnar prófanir. En enn þá hefur gríðarlegur fjöldi efna af eldri gerð ekki farið í gegnum þau nálaraugu eða þær prófanir sem yngri efnin fara í gegnum.

Eftir því sem ég kemst næst og þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, meðal annars á heimasíðu Landverndar sem hefur barist mjög fyrir framgangi þessa máls og tekið þátt í norrænu verkefni sem hefur miðað að því að reyna að ná kröfum umhverfisverndarsinnanna eins langt og hægt er í þessari löggjöf kemst ég að því að árið 1930 hafi verið áætlað að notkun kemískra efna í heiminum hafi verið um 1 milljón tonn á ári, 1930 1 milljón, en nú mun árleg notkun vera um 400 milljón tonn þannig að hér er ekki verið að tala um neitt smáræði. Þessi efni mörg hver létta okkur lífið í amstri dagsins. Þetta eru efni sem eru notuð í ýmiss konar framleiðsluvörur. Það má segja að þetta séu þægindaaukandi efni. Mér dettur í hug að nefna jafnvel efni sem sett eru í ýmsar hreinsivörur, snyrtivörur, jafnvel matvörur, kekkjavarnarefnin og ýmislegt í þeim dúr sem eiga að gera okkur lífið auðveldara á 21. öldinni. En sannleikurinn er sá að við vitum afar lítið um áhrif stórs hluta þessara efna á umhverfi og heilsu fólks.

Ég hygg að það hafi verið vorið 2004 sem fram komu tillögur um nýja löggjöf hjá Evrópusambandinu. Ég held að það hafi verið 2003 eða 2004 sem ég rak augun í að það væru veruleg átök um markmið þeirrar löggjafar sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vildi setja. Umhverfisverndarsinnar höfðu mjög miklar væntingar á þessum tíma til löggjafarinnar. Þeir töldu að framkvæmdastjórnin væri alveg einlæg og heiðarleg í því að vilja vernda heilsu og umhverfi og stuðla að sjálfbærri þróun með framsetningu þessara tillagna. Engu að síður var sú tillaga sem þá var kynnt ákveðin málamiðlun á milli, eins og ég sagði, hagsmunaaðila.

Svo brá nú við þegar tillagan var fullbúin og komin fram að þá urðu veruleg átök á milli hagsmunagæsluaðila iðnaðarins og umhverfisverndarsinna. Eftir því sem maður kemst næst í frásögnum af þessu munu um 400 hagsmunagæslumenn hafa starfað á þessum tíma fyrir efnaiðnaðinn. Það eru lobbýistarnir frægu í Evrópusambandinu sem eru sterkastir þar sem fjármunirnir eru mestir og auðvitað voru þeir í þessu tilfelli miklu fleiri hjá iðnaðinum en hjá umhverfisverndarsinnunum og náttúruverndarsamtökunum. Það upphófst gríðarlegur hræðsluáróður gegn þessum hugmyndum sem Evrópusambandið var þá búið að setja fram og framkvæmdastjórnin hafði fært fram í formi tillögu til laga eða tilskipunar. Eftir því sem málinu vatt fram — það er nú ekki auðvelt svo sem að fylgjast með þessu mikla bákni, Evrópusambandinu — en þá segir á heimasíðu Landverndar að hræðsluáróður iðnaðarins í Brussel hafi verið talsvert meiri í þessu tilfelli en áður hafi verið dæmi um, það hafi verið lagðar fram skýrslur með illa undirbyggðum ályktunum um neikvæða áhrif REACH-tilskipunarinnar á efnahagslífið og það mun hafa farið svo að í endurskoðaðri tillögu framkvæmdastjórnarinnar hafi verið fátt sem umhverfisverndarsinnar gátu huggað sig við eða glaðst yfir. Mér segir því svo hugur um, án þess að ég hafi lesið þetta til hlítar, að hér sé búið að þynna upphaflegu hugmyndirnar mjög mikið út. Nú vil ég hvetja hv. umhverfisnefnd Alþingis til að fara vel ofan í saumana á þeirri baráttu sem fram fór á vettvangi Evrópusambandsins, kynna sér hvað fór úrskeiðis þegar viðhorf umhverfisverndarsinna og náttúruverndarsamtaka eru skoðuð og athuga hvort ekki væri hyggilegt að við Íslendingar reyndum að ganga feti lengra en tilskipunin segir til um ef við teljum þess þörf. Í ljósi þeirra átaka sem urðu um málið þegar það fyrst kom fram tel ég einboðið að við Íslendingar sem stærum okkur af hreinni og ósnortinni náttúru og vilja til umhverfisverndar leggjum nú verulega mikið á okkur í þessum efnum til að tryggja að okkar löggjöf geti verið svo metnaðarfull að hún gleðji umhverfisverndarsinna og náttúruverndarsamtök og náttúruverndarsinnað fólk.

Hæstv. forseti. Ég held að umbætur í löggjöfinni séu tvímælalaust þarfar og nauðsynlegar. Ég vil hins vegar minna á að Umhverfisstofnun sem á að annast eftirlit samkvæmt þessu frumvarpi með þeirri ábyrgð sem framleiðendur og innflytjendur eiga að bera samkvæmt frumvarpinu, á að fá til þess aukna fjármuni að einhverju leyti. Það er talað um ríflega 20 milljónir í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og talað um að tvö ný stöðugildi komi til stofnunarinnar til þess að tryggja þetta aukna álag sem stofnunin verði fyrir. Ég vil bara minna á það hér að stofnunin fékk í síðasta fjárlagafrumvarpi að einhverju leyti aukna fjármuni vegna Evrópusamstarfsins og sennilega þá REACH-tilskipunarinnar að hluta til en fékk ekki náð fyrir eyrum fjárlagavaldsins hvað varðar aðrar beiðnir. Ég nefni til dæmis bara fjárbeiðni til landvörslu eða til þess að halda áfram að vinna að náttúruverndaráætlun. Ég minni á að enn eru þrettán svæði á núgildandi náttúruverndaráætlun ófriðlýst. Það skyldi nú ekki vera að ástæða þess sé sú að stofnunin hafi ekki fengið til þess þann mannafla eða þá fjármuni sem nauðsynlegir eru eða er það kannski bara að það sé enginn vilji hjá stjórnvöldum til þess að heimila Umhverfisstofnun að klára að vinna þær friðlýsingar sem þarf að vinna samkvæmt náttúruverndaráætluninni okkar?

Ég tel að það sé alla vega fullt tilefni til þess að skoða aðstæður Umhverfisstofnunar í þessu tilliti því að það er stöðugt verið að auka álagið á þeirri stofnun. Hún hefur í sjálfu sér aldrei borið almennilega sitt barr eftir þá miklu sameiningu sem varð á málaflokkunum hérna um árið þegar sameinaðar voru undir einn hatt einar fimm stofnanir þannig að ég held að það sé fullt tilefni til að skoða starfsaðstæður Umhverfisstofnunar þegar löggjöf af þessu tagi, jafnumfangsmikil og hún er, lítur hér dagsins ljós.

Hæstv. forseti. Ég fagna því að frumvarpið skuli komið hér fram. Ég treysti því að við getum skoðað þetta það djúpt í umhverfisnefnd — að það liggi ekki svo á að við getum ekki skoðað þetta mál það vel að við athugum það að löggjöfin verði svo metnaðarfull að jafnvel umhverfisverndarsinnar verði glaðir.