138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

tilgangur farar forsætisráðherra til Brussel.

[10:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við heyrum að hæstv. fjármálaráðherra er viðkvæmur í dag og ef menn rýna í orð hans er hann mjög ósáttur við þá aðila sem hann starfar með í ríkisstjórn. Ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um að í stjórnarsáttmálanum hjá þessari ríkisstjórn segir að stuðla eigi að opinberri stjórnsýslu og auknu gagnsæi. Hæstv. ráðherra getur ekki skammað hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar fyrir það þegar aðstoðarmaður forsætisráðherra upplýsir Ríkisútvarpið um að um leyniferð hafi verið að ræða. Sömuleiðis getur hann ekki skammað hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar fyrir það ef hér segir að um einkaferð forsætisráðherra sé að ræða, sem eru hrein og klár ósannindi. Hann getur heldur ekki skammað hv. þingmann fyrir að vísa í viðtal sem birtist í Morgunblaðinu , með leyfi forseta:

„Ég myndi svo sannarlega lýsa þessu sem óvenjulegu tilviki. Þeir sem sniðganga slíka fundi á ferð sinni um Brussel eru jafnan einræðisherrar frá Mið-Asíu.“ (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Þetta er fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra.)

Já, já, virðulegi forseti, hafðu engar áhyggjur af því, það kemur. Ég veit bara að það er svo gott samstarf í ríkisstjórninni að það er eðlilegt að tala við hana alla þegar maður er hér í ræðustól til að spyrja einstaka ráðherra. En ég lít svo á að ég fái aukatíma til að lesa aftur tilvitnunina því að annars kem ég þessari spurningu ekki almennilega frá mér:

„Ég myndi svo sannarlega lýsa þessu sem óvenjulegu tilviki. Þeir sem sniðganga slíka fundi á ferð sinni um Brussel eru jafnan einræðisherrar frá Mið-Asíu. Því myndi ég án efa halda að evrópskur þjóðhöfðingi eða forsætisráðherra myndi alla jafna mæta á fundi með blaðamönnum eftir fundi með Barroso,“ segir Toby Vogel, blaðamaður hjá European Voice, systurriti Economist.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. utanríkisráðherra tveggja spurninga:

1. Af hverju er þessi leyndarhyggja í tengslum við þessa ferð?

2. Núna þegar okkar ágæti hæstv. forsætisráðherra hefur tækifæri til að tala okkar máli við evrópsku pressuna, hver er ástæðan fyrir því að við nýtum ekki það tækifæri?