140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

orð forsætisráðherra um krónuna.

[11:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að framsóknarmenn séu á réttri leið þegar þeir eru farnir að halda ráðstefnu um að taka upp nýjan gjaldmiðil, leggja að vísu til einhliða upptöku annarrar myntar sem ég tel að sé ekki skynsamleg (Gripið fram í.) en þeir eru að viðurkenna með því að óbreytt ástand gangi ekki. (Gripið fram í: Jú.) Það er fyrsta skrefið út úr afneituninni. (Gripið fram í.) Og ég tel, og býð það hér með fram, að allir flokkar á þingi eigi að setjast yfir þetta mál í ró og með því hugarfari að gera það sem skynsamlegast er fyrir þessa þjóð. Við þurfum þjóðarsátt um nýjan gjaldmiðil, það er það sem við þurfum og það er að því sem við eigum að vinna. Allt annað mun skapa mikla erfiðleika fyrir fyrirtækin í landinu, fyrir einstaklinga, fyrir skuldir fyrirtækja og heimila, og því fyrr sem menn komast (Forseti hringir.) að þeirri niðurstöðu að setjast yfir það að mynda þjóðarsátt um nýjan gjaldmiðil sem er stærsta framtíðarmál þessarar þjóðar að koma af stað, því betra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) [Háreysti í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Það er ekki hægt að halda hér áfram umræðu um dagskrármál. — Forseti telur ekkert athugavert við fundarstjórn forseta, hún hefur gengið alveg eðlilega fyrir sig.)