141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

útlendingar.

541. mál
[15:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um útlendinga, mjög viðamikið mál sem felur í sér miklar breytingar að mörgu leyti, sumar til góðs og aðrar sem ég tel að þurfi mikillar skoðunar við. Ég tel að það sé mjög metnaðarfullt af hálfu hæstv. ráðherra að leggja það hér til og trúa því að frumvarpið muni ná fram að ganga í vor, án þess að ég sé að gefa í skyn að það sé algjörlega ómögulegt. En ég tel að málið þurfi mikillar skoðunar við í nefndinni af því að hér er stórt og mikilvægt mál á ferðinni.

Ég tel mjög mikilvægt að finna ákvæði í frumvarpinu um móttökumiðstöð. Ég fagna því og tel að við eigum að fara vel yfir hvaða hlutverki hún eigi að gegna o.s.frv.

Mig langar í örstuttu máli að ræða um ákvæðið sem ég fjallaði aðeins um áðan í andsvari við hæstv. ráðherra, þ.e. 48. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um börn yngri en 18 ára. Þar er talað um hvaða merkingu „börn yngri en 18 ára“ skuli hafa í lögunum. Vegna þess að greinargerðin býður ekki upp á neinar útskýringar á því hvað er átt við eða hvaðan fyrirmyndin er komin efast ég um að það standist skoðun. Hér er verið að tala um að þegar sótt er um dvalarleyfi á grundvelli laganna fyrir einstakling sem er yngri en 18 ára framlengist aldursskilgreiningin, þ.e. einstaklingurinn telst njóta allra réttinda sem barn langt umfram 18 ára aldurinn ef umsóknin berst fyrir 18 ára afmælisdag barnsins. Mér finnst við þurfa að fara vel yfir það vegna þess að ég tel að almennt séð eigi það ekki við börn sem búsett eru hér á landi. Þau hafa ákveðin réttindi upp að 18 ára aldri en þá breytast réttindin, þá telst einstaklingur ekki lengur vera barn, frá þeim tíma telst viðkomandi vera fullorðinn einstaklingur. Ég sé ekki að við getum farið að gera að sérstakar undanþágur frá því í einhverjum ákveðnum málaflokki. Mér finnst það alla vega frekar sérkennilegt. Við þurfum þá að fá nánari útskýringar á því hvers vegna það er gert og hvaða til hvaða fyrirmynda er verið að horfa.

Mig langar líka að vísa til umsagnar fjárlagaskrifstofu efnahags- og fjármálaráðuneytisins varðandi kostnaðinn. Hér er mikil áhersla lögð á að flýta málsmeðferð og stytta alla fresti o.s.frv., en það er alveg ljóst að það mun hafa kostnað í för með sér. Ég tel að ekki komi fram raunhæf mynd í umsögn fjárlagaskrifstofunnar af því hver kostnaðurinn verður við þessar miklu breytingar. Ég tel að kostnaðurinn sé mjög vanáætlaður í því stutta fylgiskjali sem er með frumvarpinu og vonast til þess, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson talaði um áðan, að farið verði vel yfir það í nefndinni vegna þess að við þurfum að átta okkur á því áður en af stað er haldið hvað það mun kosta allt saman og reyna þá að skýra þann kostnað. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður bara við uppsetningu móttökumiðstöðvar, sem ég tel vera mjög til bóta og rétt að gera, geti numið um 44 millj. kr. á ári. Ég tel að það sé ekki raunhæf áætlun gagnvart þeim litla lið sem fjallað er um í umsögninni.

Herra forseti. Svo vonast ég til þess að öll undirliggjandi gögn sem tengdust vinnu nefndarinnar og vinnu þessa máls komi fram í nefndinni þannig að menn geti kynnt sér hvaða sjónarmið lágu til grundvallar. Maður getur ekki á þeim stutta tíma sem liðið hefur frá því að málið var lagt fram verið búinn að setja sig algjörlega inn í hvert eitt ákvæði frumvarpsins. En það er alveg ljóst af málinu að hér er um miklar breytingar að ræða á sumum sviðum og tel ég nauðsynlegt að Alþingi gefi sér tíma til þess að fara ítarlega yfir frumvarpið.