143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[11:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður er einnig meistari í ræðuflutningi og meistari í því að draga fram ýmsar hliðar sem aðrir sjá ekki og velta málunum þannig upp að þau megi skilja á fleiri en einn veg. En það er ekki gott að reyna að vekja falsvonir hjá þjóðinni, eins og mér fannst hv. þingmaður gera í andsvari sínu, að vekja þær vonir (Gripið fram í.) hjá fólki að Ísland geti fengið varanlegar undanþágur frá sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins í heild sinni. Hvaða málflutningur er það? Er hv. þingmaður að reyna að halda því fram og að reyna að vekja þær væntingar hjá þeim sem starfa í sjávarútvegi, hjá þeim sem starfa í landbúnaði, að það sé raunhæfur möguleiki? Ég held að hv. þingmaður, sem er mjög reyndur maður og fór með það vald á síðasta kjörtímabili að stýra þessu máli fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, viti það betur en allir hér inni að slíkt er algerlega útilokað. Við skulum reyna að temja okkur þann sið að vekja ekki falsvonir hjá íslensku þjóðinni. Ég held að það hafi sýnt sig í öllu Evrópusambandsaðildar- og aðlögunarferlinu frá upphafi að farið var af stað á röngum forsendum, farið var af stað á veikum grunni og þess vegna náði fyrrverandi ríkisstjórn ekki að klára samninginn sem hún ætlaði sér að gera á nokkrum mánuðum.