143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[11:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Það kemur engum á óvart að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir metur það svo að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Sama á við um fjölmarga aðra forustumenn í Sjálfstæðisflokknum.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann um gildi loforða, þá sérstaklega um gildi loforða flokksfélaga hennar og forustumanna, allra ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni, þar með talið frá formanni, varaformanni og 2. varaformanni, til kjósenda um það fyrir ári síðan að þó að þeir teldu, eins og hv. þingmaður, að hagsmunum Íslands væri best borgið utan Evrópusambandsins hygðist flokkurinn engu að síður fela þjóðinni að taka ákvörðun um framhald aðildarinnar. Algerlega skýr og fyrirvaralaus voru þau loforð.

Nú hefur hæstv. forsætisráðherra lýst því yfir að forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafi aldrei beðið um það í stjórnarmyndunarviðræðum að sú þjóðaratkvæðagreiðsla, sem þeir þó lofuðu, færi fram. Nú er komin fram tillaga sem gengur þvert á þessi loforð og hæstv. heilbrigðisráðherra lýsti því yfir rétt áðan að enn þá væri ekki búið að svíkja, enda væri ekki búið að samþykkja tillöguna. Hann vísaði til þess sem líka hefur mátt skilja á formanni Sjálfstæðisflokksins, að óbreytt yrði tillagan ekki samþykkt, enda væri hún svik, heldur eigi þjóðin að fá að koma að þessari ákvörðun eins og lofað var, hvað sem líður hagsmunamati hv. þingmanna. Ég spyr hv. þingmann einfaldlega: Telur hún að hún og Sjálfstæðisflokkurinn séu bundin af þeim loforðum sem gefin voru kjósendum fyrir aðeins einu ári síðan?