145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TiSA-samningurinn.

[11:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er óskaplega margt á huldu eða í það minnsta óljóst þegar kemur að TiSA. Birting samningstextanna, sem hafa verið birtir opinberlega, var ekki að frumkvæði samningsaðila en eftir að þeim hafði verið lekið og Wikileaks birt þá ákvað til að mynda Ísland að birta öll sín gögn. Það er vissulega út af fyrir sig gott. Við vitum hins vegar ekkert um samningsmarkmið hinna ríkjanna sem við erum að semja við, en við vitum þó að almennt er talað um að skuldbindingar TiSA gangi lengra en skuldbindingarnar sem voru fyrirhugaðar í GATS.

Það er vissulega rétt sem hæstv. ráðherra segir, auðvitað getur Ísland ekki birt samningsmarkmið annarra. Það sem Ísland getur hins vegar gert er að hvetja önnur samningsríki til þess að birta samningsmarkmið sín.

Mig langar að beina því til hæstv. ráðherra að jafnvel tala fyrir því að fá áfangaskjöl úr þessum samningaviðræðum birt til að almenningur viti eitthvað um það sem er að gerast.

Það hefur komið fram að opinber þjónusta sem og viðkvæm svið eins og heilbrigðisþjónusta séu undanskilin í samningnum, a.m.k. hvað Ísland varðar. En ég spyr: Opnast það og verður partur af TiSA ef þjónustan verður einkavædd? Hvar lendir einkarekin þjónusta? Einkareknar heilsugæslustöðvar, falla þær undir TiSA? Svona spurningum tel ég mjög mikilvægt að við fáum svarað.

Að endingu tel ég algjört grundvallaratriði að við ræðum samninginn á Alþingi þegar heildarmyndin er komin. Ef við ætlum að klára (Forseti hringir.) þessar viðræður verður Alþingi að ræða þær áður en farið er út og skrifað undir.