145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:35]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er kannski það sem vekur athygli. Þetta er eins og með sumt að það virðist ekki vera hægt að bíða eftir niðurstöðum. Ráðherra sagði hér áðan að ekki hefðu verið til ýmis gögn í ráðuneytinu, þurft hefði að safna þeim saman o.s.frv. Maður spyr sig af hverju ekki er hægt að bíða. Hvað liggur á að þetta frumvarp nái fram að ganga? Snýst þetta fyrst og fremst, eins og orðræðan í frumvarpinu er, um hagræðingarsjónarmið fyrir sveitarfélögin en ekki virka velferðarstefnu? Það virkar þannig á mig.

Við getum ekki í einu orðinu talað um fátækt fólk, fátæk börn sem líða skort og sagt svo: Þið sem eruð komin til sveitarfélagsins, af því að það er ekkert annað sem á eftir að reyna, við ætlum líka að skerða ykkur. Fólk fer ekki á framfæri sveitarfélags — það eru afar þung spor að standa frammi fyrir því — nema það sé komið í algjört þrot.

Ég tek undir þetta með greininguna en ég hefði viljað sjá tekið út hér heima hvernig skjólstæðingar þessara tilraunasveitarfélaga, eða hvað við viljum kalla þau, sem hafa beitt þessu, hafa komið út. Hvað hefur orðið um þá? Hvar eru þeir í dag sem hafa þurft að gangast undir skilyrðingu af því tagi sem hér er lögð til?

Ég skil eiginlega ekki af hverju ráðherra liggur svona á með þetta mál. Þetta er eins og með brennivínsmálið, þetta er í forgangi en þó skiptir það ríkið í sjálfu sér ekki svo óskaplega miklu máli að bíða með þetta þar til fyrirliggjandi göng verða komin í hús.