146. löggjafarþing — 74. fundur,  29. maí 2017.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:53]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Við Íslendingar erum orðin vön því að slá heimsmet, a.m.k. miðað við höfðatölu, svo vön því að ætli orðin „per capita“ séu ekki fyrsta latínan sem við lærum flest í lífinu. Þessa dagana erum við t.d. að slá heimsmet í að versla í Costco. Heimsmetin geta verið misjafnlega jákvæð og stundum neikvæð. Að skora hátt í ofþyngd barna er t.d. met sem við viljum ekki eiga og verðum að breyta.

En annað næstum-því-heimsmet og talsvert jákvæðara var í úttekt eins virtasta læknatímarits heims á dögunum sem sagði íslenska heilbrigðiskerfið það næstbesta á heimsvísu. Margir hváðu við, skiljanlega kannski. Það rímar auðvitað alls ekki við umræðuna svokölluðu og rímar eflaust ekki við upplifun margra. Hvað er þá rétt, úttektin, umræðan eða upplifunin? Eflaust hefur allt þetta eitthvað til síns máls.

Heilbrigðiskerfið okkar er nefnilega svo margt. Það felur í sér frábært ungbarnaeftirlit og eitthvert mesta langlífi í heimi. Heilbrigðiskerfið er líka hækkun launa lækna, bygging nýs spítala, þak á lyfjakostnað og jafnari greiðsluþátttaka sjúklinga. Við getum verið stolt af þeim þáttum og mörgum öðrum.

En heilbrigðiskerfið okkar er líka of mikið álag á starfsfólk Landspítalans, of langir biðlistar eftir aðgerðum og fleira má vissulega tína til.

Þegar mögulegar lausnir á vandamálunum eru ræddar virðist loða við umræðuna ótti og óöryggi fólks yfir að hér eigi að einkavæða allt, eins og það er oft orðað. Samt ríkir á Íslandi þverpólitísk samstaða um þau sjálfsögðu réttindi að allir búi við góða heilbrigðisþjónustu, burt séð frá efnahag. Ég held að þarna líði umræðan mikið til fyrir hugtakarugling á milli einkavæðingar og einkareksturs. Við þurfum að nota hugtök alveg skýrt í þágu þessarar mikilvægu umræðu. Einkarekstur hefur verið mikilvægur hluti okkar heilbrigðiskerfis í áratugi þótt þjónustan sé greidd úr sameiginlegum sjóðum. Verkefnið núna er að tryggja að einkarekstur vinni sem best með opinberum rekstri og styðji við hann til framtíðar.

Í ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2022 er forgangsraðað í þágu heilbrigðis- og velferðarmála en það er vissulega hlutverk okkar hér að vera á tánum og passa að þeim peningum sé varið á sem bestan hátt.

Í fréttaumfjöllun um næstum-því-heimsmet í besta heilbrigðiskerfinu sagði landlæknir að það ætti að fara varlega í að halda að þar með væri allt gott. Það er alveg rétt. Landlæknir sagði jafnframt að þær þjóðir sem væru ofarlega á blaði samkvæmt úttekt læknatímaritsins væru líka að ræða einhver vandamál í sínu heilbrigðiskerfi þar sem enginn sé enn búinn að finna hið fullkomna kerfi. Og það er líka yfirstandandi verkefni okkar hér.

Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey tók nýlega saman skýrslu um íslenska heilbrigðiskerfið þar sem rauði þráðurinn er að það skorti heildarstefnu og að kerfið okkar sé um margt óskilvirkt þótt það sé um margt gott. Þar er minnst á að tengsl á milli gæða og kostnaðar eru ekki algild. Þannig getur ódýrt skilvirkt kerfi náð betri árangri en dýrara, óskilvirka kerfið. Þar segir einnig að það þurfi að vera skýrara hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum og hvað eigi að gera annars staðar með ódýrari hætti, t.d. á heilsugæslu og einkastofum sérfræðilækna.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er einmitt eyrnamerkt sérstakt fjárframlag til að fara ofan í saumana á heilbrigðiskerfinu okkar að þessu leyti, að horfa heildstætt á kerfið og taka ákvarðanir sem stuðla að því að allir nauðsynlegir þættir þess, hvort sem eru heilsugæslan, spítalarnir eða sérfræðingar á einkastofum, vinni sem best saman.

Í þessari vinnu má opinber rekstur ekki vera kredda þar sem ekki má minnast á einkarekstur en einkarekstur má heldur ekki vera kredda þar sem opinbera rekstrinum er fundið allt til foráttu. Staðreyndin er sú að bestu heilbrigðiskerfi vestrænna landa eru einhvers konar blanda af þessu tvennu, það þarf bara að finna réttu samræminguna. Við eigum að geta fundið taktinn í því hvernig þessir þættir vinni sem best saman svo hver og einn fái að njóta sín á skilvirkan og hagkvæman hátt, en fyrst og fremst í þágu framúrskarandi þjónustu við sjúklinga. Við eigum að geta staðið að því að reyna að finna þann takt. Hví ekki að rifja upp þegar þjóðin náði í sameiningu ótrúlegum takti í víkingaklappinu sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom einmitt inn á í hressandi ræðu sinni að er löngu orðið heimsfrægt. Við munum að þetta var flókinn taktur í byrjun og okkur vantaði smávegis samhljóminn en við náðum þessu flest að lokum — nema auðvitað Magnús Magnús Magnússon.

Það væri frábært ef við gætum náð þannig takti og samstöðu um heilbrigðiskerfið og um fótboltalandsliðið þá. Og þá er kannski ákveðið lykilatriði að leyfa öllum leikmönnunum að njóta sín, nota krafta allra þeirra sem hafa sérþekkingu og hugmyndaauðgi í heilbrigðismálum til að búa til besta liðið fyrir enn betri árangur. — Ég þakka þeim sem hlýddu.