149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

vinnumarkaðsmál.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þær tillögur sem þegar hafa verið lagðar fram um breytingar á skattkerfinu byggja á ítarlegri skýrslu sem kynnt var að mig minnir í þarsíðustu viku eða jafnvel í upphafi síðustu viku. Það stendur ekki til að breyta þeim tillögum í grunninn en að sjálfsögðu eiga þær eftir að fara til þinglegrar meðferðar og það skiptir líka máli þegar þær verða útfærðar hvernig við sjáum húsnæðisstuðningskerfið og barnabótakerfið þróast samhliða tillögunum.

Eins og ég nefndi áðan eru ákveðnir þættir og ég skildi spurningu hv. þingmanns þannig að hann óskaði líka eftir því að ræða hvaða frekari tillögur væru til umræðu. Ég nefndi tillögur um stuðning við fyrstu kaup og tillögur um það hvernig hægt verði að vinda ofan af verðtryggingunni, ekki síst þegar kemur að neytendalánum. Í þriðja lagi vil ég nefna lífeyrismálin sem eru nokkuð sem oft hefur verið á borði stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar. Þar þurfum við að taka samræðu um frekari þróun mála þegar kemur að lífeyrismálum og það samtal erum við að sjálfsögðu reiðubúin í.