149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

fjórða iðnbyltingin.

[15:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það var einmitt áhugavert að fjallað er sérstaklega um þetta í stuttu máli í skýrslunni, þ.e. hvaða áhrif tæknibreytingar geta haft á jöfnuð og að þar ráði stefnumótun stjórnvalda miklu. Þá vil ég segja varðandi breytingar sem munu verða á vinnumarkaði að þar mun skipta máli hvað stjórnvöld gera til þess að styðja við fólkið í landinu til að takast á við þær breytingar. Ég nefndi áðan fjárfestingar í rannsóknum en það þarf ekki síður að huga að símenntunarþættinum og það var eitt af því sem kom fram. Við þurfum að leggja mun meiri áherslu á símenntun, sem við höfum vissulega verið að auka við á undanförnum árum og áratugum en ekki út frá þessari hugmynd, þeim breytingum sem eru að verða á vinnumarkaði.

Síðan vil ég nefna annað sem kom fram, að færniþættirnir sem nú eru taldir skipta mestu þegar kemur að leikskólamenntun og grunnskólamenntun hafa gjörbreyst á áratug. Ég skrifaði hjá mér að þar væri talað um gagnrýna hugsun, skapandi hugsun og tilfinningagreind. Allt var þetta miklu neðar á færnilistum bara fyrir fimm árum. Ég er hins vegar mjög ánægð með það að í námskrám frá 2011, sem ég fékk (Forseti hringir.) þann heiður að skrifa undir, er gagnrýnin og skapandi hugsun meðal þess sem við getum kallað grunnþætti námskrárinnar. Tilfinningagreindin var hins vegar ekki komin inn í þá námskrá. En við þurfum auðvitað að nálgast allt menntakerfið þannig að við gerum öllum kleift að takast á við tæknibyltinguna og rækta eigin tækifæri í henni. Það er risastórt jafnaðarmál.