149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

aðgerðaáætlun gegn mansali.

[15:38]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að aðgerðaáætlun gegn mansali var tímasett á sínum tíma og hefur eðli málsins samkvæmt runnið sitt skeið. Ég vil hins vegar árétta að það þýðir að sjálfsögðu ekki að hér sé ekki við lýði áætlun gegn mansali heldur er það öðru nær. Í gildi eru lög og annað sem taka á mansali.

Mér þykir hv. þingmaður kannski taka fulldjúpt í árinni með fullyrðingu sinni um að mansal hafi verið viðvarandi vandamál hér á landi undanfarið, eins og hann orðaði það. Ég held að erfitt sé að rökstyðja þessa fullyrðingu nákvæmlega.

Mansal hefur hins vegar verið mjög til umræðu hér og hafa menn vakið athygli á því, eins og hv. þingmaður nefnir, erlendir aðilar — þá hlýtur hann að vera að vísa til niðurstöðu bandarískra yfirvalda sem hafa velt því fyrir sér af hverju lítið sé um útgáfu ákæra hér á landi í mansalsmálum. Því hef ég svarað þannig að réttarfarið hér á Íslandi sé með allt öðrum hætti en í Bandaríkjunum. Sem betur fer, segi ég nú, að því leyti að við höfum ekki ákæruréttarfar, heldur eru gefnar út ákærur á þeirri forsendu að það séu meiri líkur en minni til sakfellingar í málum. Það hefur lögreglan gert. Hún hefur gefið út ákæru í mansalsmálum, fengið ábendingar um mögulegt mansal, en rannsakað þau mál og látið niður falla. Þetta er því í sjálfu sér í góðum farvegi.

Það breytir því hins vegar ekki að við erum að vinna að áherslum stjórnvalda í mansalsmálum sem ég mun vonandi kynna hér á næstu dögum. Þær hafa verið í vinnslu nokkuð lengi og í ítarlegu samráðsferli meðal ýmissa utan Stjórnarráðsins og innan þess. Ég held að ég geti fullyrt að á næstu dögum verði þessar áherslur kynntar, þá mögulega fyrst á samráðsgáttinni til að gefa mönnum tækifæri til að hafa skoðanir á því. En í öllu falli verða þær kynntar opinberlega innan tíðar.