149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

aðgerðaáætlun gegn mansali.

[15:40]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég ætla svo sem ekki að deila við hana um hvað sé viðvarandi vandamál eða hvað okkur finnist vera vandamál hvoru um sig, en ég tel í það minnsta mansal hafa verið vandamál á Íslandi. Þá má ekki gleyma því að ef við erum ekki að leita að einhverju vandamáli sjáum við það ekki. Ef við mælum aldrei hraðakstur brýtur enginn lög um hraðakstur.

Ég vil leggja áherslu á hversu mikilvægt það er að ný mansalsáætlun sé að fullu fjármögnuð svo árangur geti náðst. Það gengur ekki að setja fram einhverjar áætlanir sem eru svo ekki fjármagnaðar þannig að ekki er hægt að fylgja þeim eftir.

Komið hefur fram að bæði lögregla og verkalýðsfélög hafa talið að þau skorti tæki til að vinna í þessum málum. Við höfum verið gagnrýnd fyrir aðbúnað og aðstæður þolenda. Sem dæmi má nefna hefur verið gagnrýnt að lög og reglur á Íslandi um dvalar- og atvinnuleyfi mansalsfórnarlamba hafi gert okkur erfitt fyrir að tryggja öryggi þeirra hér á landi og einnig aðkomu að málum á seinni stigum. Það segir okkur einfaldlega að fórnarlömbin eru farin úr landi áður en þau geta nokkurn tímann vitnað fyrir dómi.

Ég tel mjög mikilvægt að brugðist verði við þessu á einhvern hátt, (Forseti hringir.) að fundin verði lausn á þessum málum varðandi dvalar- og atvinnuleyfi.