149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

vöktun náttúruvár.

546. mál
[17:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Í þessari fyrirspurn færum við okkur hæstv. ráðherra utan af sjó og upp á land vegna þess að hér er spurt um náttúruvá sem hefur verið töluvert mikið í umræðunni, stundum hér í þingsal líka. Hún er eins og menn vita af ýmsum toga. Ég ætla að nefna það helsta. Við getum talað um veðurfarsöfgar, bæði ofsaveður og snjóflóð, hækkun á hafsyfirborði, sem er töluverð, sem fer svolítið eftir því hvar við erum stödd á landinu. Það er þiðnun sífrera á Íslandi, sérstaklega í fjöllum þar sem berghlaup og skriður geta komið í kjölfarið. Það er ágangur jökulvatna vegna þess að nú er tímabundið aukið afrennsli frá jöklum. Svo eru það jökulhlaupin margfrægu sem geta verið af orsökum eins og jarðhita, eldgosum, brostnum jökulstíflum og öðru slíku, og svo er það eldvirknin sjálf sem kann að aukast nú þegar fargi léttir af þeim jöklum sem hylja stórar eldstöðvar og svo auðvitað jarðskjálftar. Staðreyndin er sú að síðustu 100, jafnvel 200, árin höfum við sloppið nokkuð vel, einkum með tilliti til erfiðra eldgosa. Þau eru einna válegust af þeim náttúruvám sem ég taldi upp, ef þau eru mjög öflug. Við gætum nefnt Heklugosið 1104, Öræfajökul 1362, Veiðivatnagosið 1480 og svo Skaftárelda 1783.

Eldvirkni af þessari tegund brestur á nokkrum sinnum á hverju árþúsundi og við eigum eftir að upplifa eitthvað slíkt eftir nokkur ár, áratugi eða í síðasta lagi einhverjar aldir. Við sjáum núna stórar megineldstöðvar, fimm af þeim, vera að safna í sig kviku, Grímsvötn, Heklu, Öræfajökul, Bárðarbungu og Kötlu. Þær þrjár síðastnefndu geta verið mjög skeinuhættar og full ástæða er til að fylgjast vandlega með þeim.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig getum við eflt vöktun sem gagnast í andófi gegn náttúruvá, hvaðan fáum við fjármagn og hvar á að vista slíkt fjármagn og slíka sjóði? Þessar áhyggjur mínar eru kannski ekki mjög ígrundaðar og frekar óhlutlægar. Þetta er einhver brjósttilfinning sem ég hef en alla vega liggur að baki ósk um að hafa sem traustastar upplýsingar þegar kemur að náttúruvá. Við skulum kalla þetta vísindalegar áhyggjur.