149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

vöktun náttúruvár.

546. mál
[17:31]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda, Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir þessa tímabæru fyrirspurn og get ég tekið undir allt sem hann hefur sagt.

Ég vil beina sjónum mínum að eldgosavánni, sérstaklega Öræfajökli sem er á Suðurlandi, og leggja inn í þessa umræðu mikilvægi þess sem ég tel vera að efla almannavarnakerfið, styðja vel við það og efla, sérstaklega á Suðurlandi, og mikilvægi þess að unnið sé vandað og ítarlegt hættumat með aðkomu færustu vísindamanna og síðan verði gerðar vandaðar viðbragðsáætlanir í kjölfarið. Það hefur sýnt sig að Öræfajökull er mjög hættulegt eldfjall og er gosið árið 1362 dæmi um það. Ég vil líka benda á, því að ég hef engan tíma, að efling lögreglu er auðvitað mjög mikilvæg. Fyrsta viðbragð skiptir öllu máli. Þetta á líka við um aðra viðbragðsaðila.