149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

vöktun náttúruvár.

546. mál
[17:35]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegi forseti. Hér var spurt hvort um væri að ræða nægjanlega vöktun á þessum þáttum. Því er til að svara að það getur verið eitthvað mismunandi eftir því hvaða þættir eru þar undir. Ég vil nefna það sem kom fram í máli mínu áðan varðandi eldfjöllin, að það er a.m.k. mat Veðurstofunnar að vöktunarkerfin á þeim eldfjöllum séu viðunandi til að hægt sé að gefa út viðvaranir, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir öryggi fólks, ekki síst þar sem enn fleiri ferðamenn eru á mörgum af þeim svæðum.

Varðandi loftmyndir af svæðunum kom fram mjög áhugaverð athugasemd sem ég tel vert að skoða, sérstaklega í tengslum við þá þætti sem snúa að náttúruvánni og væri spennandi að kafa betur ofan í það.

Þar sem við vitum klárlega að við þurfum að auka í vil ég nefna sérstaklega veðursjárnar sem ég kom aðeins inn á áðan. Þar er kostnaður sem hefur verið greiddur í hið minnsta að hluta til af alþjóðasamfélaginu því að þetta nýtist mun fleirum en okkur og er nokkuð sem þarf að skoða núna og ég er reyndar með það til skoðunar í ráðuneytinu.

Síðan vil ég almennt nefna að lokum að ég tel að hamfarasjóður gæti tekið við hlutverki Ofanflóðasjóðs og Bjargráðasjóðs, eða hluta af honum, sem myndi ná bæði til rannsóknarhlutans, hvort sem það eru snjóflóð, skriðuföll, vatnsföll, sjávarföll o.s.frv., og síðan til uppbyggingar forvarna. Það er núna til skoðunar að keyra það mál áfram sem hefur verið nokkuð lengi í umræðunni og undirbúningi.

Ég þakka enn og aftur fyrir þessa góðu umræðu