149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

svigrúm til launahækkana.

505. mál
[17:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni þessa fjórskiptu fyrirspurn. Fyrst er spurt um heildarupphæð allra launagreiðslna og heildarupphæð landsframleiðslu á árunum 2014–2018 og hvernig búast megi við að þessar stærðir þróist á þessu ári miðað við forsendur fjárlaga.

Því er til að svara að ef við lítum til ársins 2014, sem er það ár sem hv. þingmaður miðar við sem upphafspunkt í fyrirspurn sinni, voru heildarlaun og tengd gjöld 1.050 milljarðar árið 2014 en á árinu 2018 voru þau orðin um 1.570 milljarðar kr.

Svo að ég fari í spurningu þrjú er á þessu ári reiknað með því að heildarlaun og tengd gjöld nemi um 1.700 milljörðum.

Ef ég fer síðan í landsframleiðsluna er því til að svara að árið 2014 var landsframleiðsla um 2.070 milljarðar en hafði aukist í um 2.800 milljarða árið 2018. Ef við lítum til þessa árs má búast við því að landsframleiðsla nemi um 3.000 milljörðum.

Hv. þingmaður spyr sömuleiðis hvort ráðherra telji eðlilegt að horfa til hlutfalls launa á móti landsframleiðslu þegar skoða eigi svigrúm til launahækkana og hvaða önnur viðmið mætti helst styðjast við, svo sem að umræða um svigrúm til launahækkana geti byggst á gögnum.

Ég vil fyrst taka undir með hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að við gerum betur. Ég kom lítillega að þessu í umræðu um fyrirspurn í dag um fjórðu iðnbyltinguna. Það er mjög mikilvægt að við skipuleggjum okkur betur sem samfélag þegar við ræðum t.d. laun. Eitt af því sem við höfum verið að vinna að er gagnagrunnurinn tekjusagan.is, sem ég nefndi í upphafi, sem miðast annars vegar við raungögn hvað varðar gögn úr skattskýrslum og hins vegar við ákveðnar, gefnar forsendur, sem miðast þá við gefnar forsendur um upphæðir húsnæðisbóta og barnabóta. Það ætti að gefa nokkuð raunsanna mynd af tekjuþróun þó að við séum með blöndu af gefnum forsendum og raungögnum.

Síðan erum við búin að vera að vinna að því að smíða ákveðinn ramma um launatölfræði. Það er mjög mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld skipi sameiginlega launatölfræðinefnd sem sammælist um á hvaða gögnum skuli byggt áður en ráðist er í gerð kjarasamninga. Það hefur auðvitað verið vandi að fólk deilir um forsendur. Sú er ekki raunin annars staðar á Norðurlöndum. Þar eru sjálfstæðar launatölfræðinefndir þar sem saman koma aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvalda sem birta hreinlega forsendur hvers árs árlega eða með einhverju vissu árabili. Þær forsendur eru undirstaðan fyrir kjarasamninga. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann talar um nauðsyn góðra gagna.

Hv. þingmaður velti svo fyrir sér hvaða önnur viðmið væru. Þá vil ég nefna að í skýrslu Gylfa Zoëga um efnahagsaðstæður í aðdraganda kjarasamninga, sem hann skrifaði fyrir forsætisráðuneytið síðasta sumar, er ekki hægt að setja samasemmerki milli þess að bæta lífskjör þjóðar og hækka laun fyrir vinnu. Launin fara eftir verðmæti þjóðarframleiðslunnar, þ.e. framleiðni, viðskiptakjörum, atvinnustigi og erlendri skuldastöðu, eins og hv. þingmaður nefnir. Kjarasamningar hafa síðan áhrif á skiptingu tekna milli hópa launafólks og á milli fjármagnseigenda og launafólks. Þannig getur launahækkun falið í sér tilfærslu á tekjum frá fjármagnseigendum til launafólks en hækkar ekki endilega heildartekjur þjóðarinnar.

Hlutfall launa af landsframleiðslu hefur hækkað úr 50,5% árið 2014 í tæp 56% árið 2018. Við spáum því að hlutfallið hækki í tæp 57% á þessu ári, sem segir okkur að launahlutfallið er óvenjuhátt hér á landi um þessar mundir og hæst á Íslandi af OECD-ríkjum á árinu 2017. Það er mikilvæg staðreynd. En þessar staðreyndir allar saman segja ekki endilega allt um hvert svigrúmið er eða hvað er sanngjarnt, heldur sýna þær bara tenginguna milli launafólks og fjármagnseigenda.

Um önnur viðmið sem mættu koma að gagni vil ég aftur nefna skýrslu Gylfa Zoëga, sem segir að almennt svigrúm til almennra launahækkana, þ.e. kjarasamningsbundinna hækkana og launaskriðs til lengri tíma, sé samtalan af áætlaðri framleiðniaukningu sem ætla mætti að væri að jafnaði 1,5% og verðbólgumarkmiðs Seðlabankans, sem er 2,5% miðað við að viðskiptakjör séu óbreytt.

Þaðan kemur talan 4%, sem haldið hefur verið á lofti núna í kringum umræðu um kjarasamninga. Gylfi bendir hins vegar líka á að lífskjör ákvarðist af ýmsu öðru. Það er sú umræða sem við höfum átt við aðila vinnumarkaðarins um hvað stjórnvöld geti gert. Þá vil ég nefna t.d. húsnæðiskostnað sem hefur vaxið hjá (Forseti hringir.) mörgu launafólki, vaxtastig, og ekki síður tíma sem eytt er í annað en vinnu, frítíma. Ég kem nánar að þessum málum í mínu síðara svari.