150. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[14:50]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þegar vá stendur fyrir dyrum er nauðsynlegt að við sýnum ákveðna samstöðu og samvinnu og reynum að vinna vel úr málum, eins vel og hægt er hverju sinni. Viðbrögð við þessari veiru eru af tvennu tagi, annars vegar er heilbrigðishliðin sem snýst um að tryggja að heilbrigðiskerfið virki og að almannavarnir geti sinnt sínu hlutverki og sömuleiðis að grípa til nauðsynlegra aðgerða þegar þeirra er þörf. Það hefur m.a. verið sýnt í dag. Sú hlið hefur gengið býsna vel. Hins vegar er efnahagslega hliðin sem snýst um að verja fyrirtækin og heimilin í landinu og passa upp á að allt muni áfram ganga vel, bæði í gegnum veirutímabilið en líka þegar því lýkur. Nú er þetta ágæta frumvarp komið og það er auðvelt að styðja það. Þetta er eðlileg og góð aðgerð í rétta átt. Það er líka auðvelt að reyna að bjóða betur, það er auðvelt að detta í einhvern popúlískan ham og reyna að þykjast vera með betri lausn sem snýst um hærri tölur, lengri fresti o.s.frv. Ég ætla ekki að detta í þann ham en vil samt benda á að hluti af markmiðinu sem við hljótum öll að hafa hér er að samvinnan sem við þurfum að sýna gangi í allar áttir, að ríkisstjórnin komi til allra og tali við alla á þinginu um hvað sé best að gera, hvaða hugmyndir séu í boði, að leitast sé við að útfæra bestu mögulegu hugmyndir hvers tíma en ekki bara þær sem er hægt að kokka upp á einni kvöldstund í fjármálaráðuneytinu. Ég er ekki að segja að þetta séu vondar hugmyndir. Þetta er fín lausn í bili og kaupir tíma til að koma með stærri, betri og nákvæmari aðgerðir í næstu viku.

Ég vil biðla til ríkisstjórnarinnar um að fara að hafa minni hlutann á þingi í samráði um hvað skuli gera næst og ekki síst að horfa til þeirra ákvarðana sem önnur lönd eru að taka. Rétt í þessu var boðað til töluverðra aðgerða í Þýskalandi sem m.a. var lýst sem „basúku“ af fjármálaráðherra landsins. Ég veit ekki hvort það eru endilega bestu mögulegar aðgerðir. Ég get ekki sagt að ég hafi verið neitt rosalega ánægður með aðgerðir Þýskalands á heilbrigðissviðinu til þessa þannig að ég veit ekki hvort fjármálahliðin sé endilega sú rétta, en ef við erum ekki opin fyrir þeim möguleikum sem eru í boði, ef við erum ekki opin fyrir því að ræða alla möguleika, ef við erum ekki líka tilbúin að skoða hvort tilteknar prósentur og tilteknar aðgerðir séu þær réttu á hverjum tíma, er hætt við því að við missum af einhverjum tækifærum. Og núna megum við ekki við því að missa tækifæri. Núna verðum við að standa okkur vel með því að horfa opið á möguleikana sem eru fyrir hendi, hlúa að heilbrigðishliðinni, hlúa að efnahagskerfinu og í öllu falli koma sterkari undan þessu öllu ef við mögulega getum.

Síðasti punkturinn minn er að það er ákveðin hætta á að fólk hlaupi í vörn, pakki saman þegar svona stendur á, en ég held að við ættum á efnahagslegu hliðinni að reyna að nota þetta sem tækifæri til að geta gert betur en við hefðum annars gert. Það er ákveðinn vandi við að reyna að búa til tækifæri úr alvarlegum vandamálum en samstaða getur skilað alveg merkilega miklu. Við skulum láta reyna á hana.