150. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[15:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Markmið þessa frumvarps er að milda efnahagshöggið sem dynur nú á þjóðinni og vinna tíma til frekari aðgerða. Við skulum nefnilega gera okkur grein fyrir því að við erum einungis að ýta skaflinum fram um einn mánuð með þessu frumvarpi.

Samfylkingin mun hins vegar styðja frumvarpið í trausti þess að næstu dagar fari í þrotlausa vinnu við að finna lausnir til að styðja við fyrirtæki í rekstrarvanda en ekki síður til að tryggja fjárhag fólksins og heimilanna og öryggi alls almennings en þar verður ríkisstjórnin að efna loforð um að vinna náið með stjórnarandstöðunni, launþegahreyfingunni, atvinnulífinu og öðrum hagsmunaaðilum og gefa þinginu nægt ráðrúm til að ræða málin og leggja hönd á plóginn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)