151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

nýjustu aðgerðir vegna Covid-19 og horfur í ferðaþjónustu.

[13:37]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það sem ég er kannski að fiska eftir og það sem ég spurði um er hvort við þurfum ekki að fara að búa okkur undir hina verstu sviðsmynd. Ég hef áhyggjur af því að við séum ekki undirbúin. Nú blasir það við að ástandið í þeim löndum sem við treystum á er mjög ótryggt. Bretar eru að hugleiða ferðabann á sína landsmenn. Faraldurinn er á fullri ferð í Evrópu. Ég held að það liggi fyrir, sérstaklega vegna þess að hið breska afbrigði er að breiðast mjög út sem er miklu meira smitandi, að vonir manna um hjarðónæmi í sumar séu algerlega óraunhæfar. Þess vegna vil ég spyrja aftur: Er ríkisstjórnin búin að búa sig undir eða er hún að búa sig undir að ferðamannasumarið, sem við öll höfum vonast eftir, svo sannarlega, komi einfaldlega ekki og jafnvel að það verði ekkert ferðamannahaust heldur? Hvað er ríkisstjórnin að undirbúa í þessu samhengi?