151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

nýjustu aðgerðir vegna Covid-19 og horfur í ferðaþjónustu.

[13:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað þessu öðruvísi en þannig að við miðum okkar áætlanir við bestu upplýsingar á hverjum tíma og höfum sýnt það fram til þessa að við erum sveigjanleg. Að fást við svona heimsfaraldur er eins og að klífa fjall. Þetta er mjög hátt fjall. Við vissum varla hversu hátt það var þegar við lögðum af stað og í slíkum leiðangri þarf maður stundum að taka hlé og fara í búðir og nú erum við loksins farin að sjá tindinn. Það eru að verða algjör straumhvörf með dreifingu bóluefna. Í Bretlandi, fyrst það var nefnt, hefur tekist að bólusetja hátt í eina milljón manns á einum sólarhring. Okkar áætlanir gera ráð fyrir því að núna um mitt ár verði allur meginþorri landsmanna kominn með bólusetningu, af fullorðnum. Við erum þess vegna núna að fara inn í ársfjórðung sem er eins og lokaatlagan að toppi fjallsins og það á að fylla okkur bjartsýni. Við eigum ekki að tala eins og að við séum að fara aftur á bak. (Forseti hringir.) Við erum einmitt að komast á leiðarenda á næsta ársfjórðungi með allt það sem mestu máli skiptir. Og þá hef ég trú á því að allt annar veruleiki muni taka við inn á síðari hluta ársins.