151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:34]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Bara til að svara því þá tel ég það einmitt hlutverk stjórnmálamanna og framkvæmdarvaldsins að vera miklu duglegri en við erum almennt við að fara yfir þau verkefni sem við sinnum hverju sinni, fara yfir það í hvað við setjum fjármunina hverju sinni, hvort sú forgangsröðun er rétt, hvort verkefnum sem við fórum af stað með fyrir 20 árum þarf að sinna af ríkinu eða sinna yfir höfuð til þess einmitt að endurraða fjármunum en biðja ekki alltaf um nýtt fjármagn fyrir öllum sköpuðum hlutum og moka ofan í grunninn sem við stöndum á og vinnandi fólk í landinu þarf að greiða fyrir.

Við erum einmitt að tryggja að nauðsynlegar rannsóknir haldi áfram. Við erum einmitt að efla rannsóknir á því sviði sem hv. þingmaður fór hér yfir. Við erum að fara af stað með prófanir sem eiga að vera faggiltar, voru ekki faggiltar en verða það með þessum breytingum. Við erum að efla bæði rannsóknir og prófanir í byggingariðnaði. Eftirlitið heyrir undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og þau eru að vinna ötullega að því að auka það eftirlit. Auðvitað þurfa þessir hlutir að vera í lagi. Þessar breytingar á stofnanakerfinu og stjórnkerfinu eru líka liður í því að við séum að sameina krafta og hafa þá á einum stað til góðs fyrir þá málaflokka sem fyrir eru og þá málaflokka sem færast til. Það er oft mikil samlegð og hægt að samnýta mannauð og verkefni og annað slíkt. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur einfaldlega gefið það út að hún muni auka mjög eftirlit í byggingariðnaði og setja þessa faggildingu á oddinn og það er einfaldlega mjög mikilvægt. Við erum bæði að tryggja að nauðsynlegar rannsóknir haldi áfram og efla rannsóknir á þessu sviði. Við erum að fara með prófanir sem ekki voru faggiltar í Nýsköpunarmiðstöð í faggilt ferli sem er mikið gæðamál og skiptir mjög miklu máli. Það eru alþjóðlegar kröfur að þetta sé faggilt og það er það sem við erum að gera með þessu verkefni.