151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna hér í dag. Það er kannski rétt að fara aðeins fyrst yfir þetta. Vissulega er ekki verið að gera breytingar á fyrri fjármálaáætlun nema akkúrat hvað þetta atriði varðar, að bæta milljarði við árlega inn í loftslagsmálin, sem ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um að sé góð og jákvæð aðgerð. En þetta þýðir líka að öll sú aukning sem hefur orðið á undanförnum árum, ekki bara til loftslagsmálanna — ég vil fá að nota tækifærið og tala aðeins víðar um umhverfismálin — heldur sér. Þar erum við að tala um 50% aukningu milli 2017 og 2021 og nærri 70% aukningu milli 2017 og 2026. Ég held að við höfum bara aldrei í Íslandssögunni séð jafn mikla hækkun til þessa málaflokks enda hefur kannski aldrei verið jafn nauðsynlegt og nú að gera það.

En hv. þingmaður spyr: Hvar er áætlunin, nákvæma áætlunin, um 55%? Því er til að svara að við komum fram með áætlun í fyrrasumar þar sem miðað var við 40%, eins og hv. þingmaður man. Nákvæmlega með hvaða hætti við náum auknum markmiðum okkar þá erum við ekki komin svo langt en við erum að setja inn aukið fjármagn sem við teljum að muni aðstoða okkur og koma okkur á þann stað að það muni takast. Það er margt annað en fjármagn sem mun skipta máli að sjálfsögðu, þ.e. á gjaldahliðinni. Við höfum líka rætt svolítið um tekjuhliðina, sérstaklega ívilnanirnar sem ég veit að ég og hv. þingmaður erum sammála um að þurfi að viðhalda þó svo að sú ákvörðun hafi ekki enn verið tekin. Þar fagna ég líka frumvarpi fjármálaráðherra um ívilnanir til grænna fjárfestinga sem skipta miklu máli.