151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:02]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég þakka ráðherra fyrir þessi svör. Þá langar mig að taka sérstaklega fyrir Listaháskólann. Lengi hefur verið talað um að hér eigi að byggja upp húsnæði fyrir Listaháskólann. Ég ræddi við mér fróðari manneskju um þau mál sem sagði að búið væri að lofa því í um 20 ár. Það er ljóst að mikil þörf er á húsnæði fyrir Listaháskólann. Sem dæmi þá hækkuðu skólagjöld í náminu nú í haust, en það er frekar kaldhæðnislegt að nemendurnir hafa fengið takmarkað að mæta í skólann, sem gengur náttúrlega illa upp fyrir marga nemendur innan deilda skólans. Í fréttum á síðasta ári kom fram að ráðherra hefði gefið út að nýr listaháskóli væri á teikniborðinu. Í frétt sem birtist 16. mars síðastliðinn kom fram að slíkt verkefni gæti kostað um 13–14 milljarða, en fjármálaráðherra gaf það út á sama tíma að slíkar stórar framkvæmdir þyrftu eflaust að bíða.

Er gert ráð fyrir uppbyggingu nýs húsnæðis fyrir Listaháskólann í fjármálaáætlun? Ef ekki, hver eru þá næstu skref varðandi byggingu slíks húsnæðis og fjármögnun þess?