151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Við höfum lagt sérstaka áherslu á unga fólkið og verið að fjárfesta og auka fjármuni inn á framhaldsskólastigið og háskólastigið nákvæmlega út af því sem hv. þingmaður nefnir, þ.e. hvort við séum mögulega að tala um týnda kynslóð. Ég vil bara upplýsa hv. þingmann um það að við höfum staðið vaktina hvað þetta varðar alveg frá upphafi, bæði frá upphafi kjörtímabilsins og líka þegar Covid kom. Af hverju? Nákvæmlega út af því að við verðum að passa upp á að tækifæri séu til staðar. Við höfum opnað menntakerfið okkar og tekið á móti þúsundum inn í kerfin okkar þannig að við séum ekki með einstaklinga til framtíðar sem hafa einhvern veginn ekki fundið sig í kerfunum okkar og þess vegna höfum við farið í þessa fjárfestingu.

Ég vil líka nefna að við höfum verið að fylgjast með brotthvarfi á framhaldsskólastiginu og eins á háskólastiginu. Við höfum farið í mikið samstarf við stúdenta og við rektora og skólameistara til að skoða nákvæmlega hver staðan er og það er ánægjulegt að greina frá því að brotthvarf hefur verið minna. Það er hins vegar svo að við áttum okkur á því, og auðvitað var gærdagurinn dæmi um það, að við erum að takmarka skólastarf og þá finnum við auðvitað að það reynir heilmikið á. Þess vegna höfum við verið að styðja betur við alla sálfræðiþjónustu og annað sem tengist því að styðja betur við menntakerfið okkar.