151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:39]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Aukning er ekki eini mælikvarðinn sem við eigum að hafa í fjármálaáætlun, heldur bætt þjónusta, hvað við fáum fyrir fjármunina og skýr forgangsröðun. Tæknibreytingar eru þess valdandi að við getum nýtt fjármunina betur og aukið þjónustu meira fyrir minna. Vegna þess að landamærin eru nefnd sérstaklega þá höfum við styrkt þau mál verulega, m.a. út af Schengen-úttekt sem fór fram 2017. Hún mun aftur fara fram á næsta ári, en við höfum lokið öllum þeim aðgerðum sem kveðið var á um þar. Svo verður tekið út hvort við höfum náð tilætluðum árangri á næsta ári. Þessu hefur verið verulega vel stýrt og forgangsraðað í þessi mál með því að veita stóraukið fjármagn í löggæsluna þar sem áherslurnar hafa verið, eins og fyrr segir, landamæravarslan, aðgerðaáætlun gegn kynferðisofbeldi, aðgerðir vegna fjölgunar ferðamanna og fleira.

Varðandi Landhelgisgæsluna og skýlið á Reykjavíkurflugvelli þá er það deiliskipulögð lóð til að stækka flugskýlið og verður það byggt þannig að hægt verði að flytja það. En það er þó ljóst að Reykjavíkurflugvöllur verður þarna áfram um einhverja tíð þangað til nýr flugvöllur verður tilbúinn. Það er ekki hægt að bjóða Landhelgisgæslunni upp á það skýli sem nú stendur enda er það ófullnægjandi fyrir þann góða þyrluflota sem verður hér til taks um næstu mánaðamót.