151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:06]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra svörin, en ég skil ekki alveg orð hennar um að það sé alrangt sem hér kemur fram. Ég bendi hæstv. dómsmálaráðherra á að lesa nýlega dóma sem fallið hafa í Landsrétti. Ég er vel meðvituð um að margt gott hefur verið gert innan kerfisins. Ég er líka meðvituð um að málaþunginn eykst stöðugt og fólk þar vinnur vel. En staðan er sú að þetta gerist trekk í trekk og linnir ekki. Í dómum er gjarnan talað um að ákæruvaldið hafi ekki getað gefið skýringar á töfum, en svarið er ekki mikið flóknara en það að málin eru mörg og kerfið þarf á meiri stuðningi að halda.

Við sjáum þetta reyndar víðar í kerfinu, t.d. hvað varðar afplánun. Dæmdir menn bíða mánuðum saman og stundum heilu árin eftir því að sitja dómana af sér. Svo dómar hafi tilætluð varnaðaráhrif þurfa menn að geta setið þá af sér sem fyrst. Við sjáum líka að dómar fyrnast. Hvað þýðir það? Það hefur þau áhrif að menn þurfa ekki að afplána dóma sem þeir fengu. Það er þess vegna sem hæstv. dómsmálaráðherra leggur nú fram tillögur um að auka samfélagsþjónustu sem tekur þá til allt að tveggja ára fangelsisdóma. Það er gert til að stytta boðunarlista í fangelsin sem lengst hefur verulega síðustu ár. Það eru meira að segja biðlistar af hálfu stjórnarinnar í fangelsin. Mér finnst þetta segja okkur að verulega sé farið að reyna á þanþol kerfisins. Svo það sé sagt þá er hugmyndin um samfélagsþjónustu góð og ég styð hana. En í þessu samhengi ræðst hún ekki að rót neins vanda heldur klippir hún aftan á allt of langan boðunarlista í fangelsi sem er orðinn svo langur að dómarar fyrnast bókstaflega. Þótt ég styðji hugmyndina um samfélagsþjónustu þá geri ég það í breiðara samhengi. Ég myndi vilja sjá að dómarar fái heimild til að dæma hana. En þetta finnst mér birta sömu mynd og við erum að tala um í tengslum við málsmeðferðartíma, að biðlistar eru raunverulegt vandamál.