151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:35]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þetta var ágætt. Þetta var kannski fyrst og fremst upptalning hjá hæstv. ráðherra á því hvað hefur verið gert. Ég er enn að bíða eftir að framboðsræðunni ljúki og við förum að tala um framtíðina, vegna þess að það er ljóst að það eru svo mörg tækifæri sem verða til í svona ástandi. Auðvitað er það rétt sem hæstv. ráðherra fór í gegnum varðandi breytingarnar, en horfum t.d. á þróunarsamvinnu. Við erum með mikil umsvif í nokkrum löndum, ekki síst í Úganda og Malaví. Þetta eru meðal fátækustu landa heims, sérstaklega Malaví, sem er iðulega neðst í GDP á heimsvísu. Það er ljóst að bólusetningar eru ekki jafn aðgengilegar öllum. Í fjölmiðlum í dag kemur fram að Ísland komi mögulega til með að græða á því ef Evrópusambandið vill ekki senda bóluefni út fyrir sín mörk fyrr en allir eru bólusettir þar. Ókei, gott og vel. Við erum aðilar að samkomulagi við Gavi um að reyna að tryggja að 20% af öllum framleiddum bóluefnum fari til þróunarríkja. En væri ekki tilefni til, þegar við erum farin að sjá fyrir endann á bólusetningarherferð okkar hér á landi, að við reynum að hjálpa þeim ríkjum sem við styðjum mest, að ná sínum eigin 100% í bólusetningu sem allra fyrst? Það væri t.d. framsýnt markmið.

Varðandi utanríkisviðskipti er gott að heyra af því að það gangi vel með Íslandsstofu. Frábært. En hvenær ætlum við að fara að ráðast á nýja markaði með þá reynslu í huga sem við höfum öðlast á síðasta ári? Það eru enn margir staðir þar sem við höfum (Forseti hringir.) mikla möguleika á útvíkkun á utanríkisviðskiptum okkar. (Forseti hringir.) Við höfum átt fundi með tælenska þinginu og öðrum á undanförnum mánuðum. Eigum við ekki að gefa svolítið í frekar en að hætta við og draga úr?