152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

biðlistar eftir valaðgerðum.

506. mál
[16:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hildur Sverrisdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir að vilja eiga hér við mig orðastað um þetta mikilvæga mál. Landlæknir heldur utan um biðlista eftir völdum aðgerðum. Þar eru þúsundir fólks sem hafa þurft að bíða lengur en 90 daga eftir alls konar aðgerðum. Landlæknir hefur sett fram viðmið um ásættanlegan biðtíma eftir aðgerðum, að hann sé 90 dagar frá greiningu. Samkvæmt nýjustu tölum um biðlista eftir völdum aðgerðum frá upphafi árs eru 14 aðgerðir af 18 þar sem yfir 20% fólks þurfa að bíða lengur en þrjá mánuði. 78% þeirra sem bíða eftir skurðaðgerðum og augasteinum hafa beðið lengur en þrjá mánuði. 71% þeirra sem bíða eftir gerviliðaaðgerð á mjöðm hafa beðið lengur en þrjá mánuði og 79% þeirra sem bíða eftir gerviliðaaðgerð á hné hafa beðið lengur en þrjá mánuði, svo nokkur dæmi séu tekin. Áður en heimsfaraldur Covid skall á gekk stjórnvöldum illa að vinna á þessum biðlistum þrátt fyrir nokkur átök til að stytta biðlista. Vegna heimsfaraldursins hafa biðlistar lengst enn frekar. Það hefur síðan sýnt sig að aðgerðum á vegum hins opinbera fækkar svo mjög yfir sumartímann og þessar tölur munu að öllum líkindum líta verr út í haust að óbreyttu. Stjórnvöld hafa góða raun að því að nýta krafta einkaframtaksins í augasteinsaðgerðum og gerviliðaaðgerðum. Heimsfaraldur Covid sýndi að það má ekki mikið út af bregða til að fresta þurfi framkvæmd svokallaðra valkvæðara aðgerða. Það eitt og sér ætti að vera næg ástæða til að útvista aðgerðum sem þessum í auknum mæli svo sjúkrahúsin á landinu geti einbeitt sér betur að sínum kjarnahlutverki.

Því langar mig, forseti, að fá að velta upp við ráðherra hér hvort hann hyggist ætla að fela Sjúkratryggingum Íslands að semja við einkaaðila um framkvæmd aðgerða eins og augasteinsaðgerða og gerviliðaaðgerða til að grynnka á þessum biðlistum og helst koma þeim alfarið öllum undir 90 daga markmiðið sem allra fyrst, eins og stefnt er að.