152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

biðlistar eftir valaðgerðum.

506. mál
[16:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrirspurnina um biðlista eftir valaðgerðum. Hv. þingmaður spyr hvort heilbrigðisráðherra hyggist beita sér fyrir því að biðtími vegna aðgerða á augasteini og liðskiptaaðgerðum verði að hámarki 90 dagar eins og mælst er til af hálfu embættis landlæknis. Ég leyfi mér að svara báðum spurningum í einu enda eru þær af sama meiði: Já, það er verkefni okkar sem stýrum heilbrigðisþjónustunni að tryggja þegnum landsins aðgengi að henni. Þá áherslu höfum við í skýra í lögum um heilbrigðisþjónustu, í heilbrigðisstefnu og í stefnu núverandi ríkisstjórnar þar sem fram kemur að heilbrigðisþjónustan skuli veitt innan ásættanlegs biðtíma. Biðlistar eru þekktir víða í heilbrigðiskerfinu enda ríkir ákveðin samstaða um að ásættanlegt sé að bíða í einhvern tíma eftir heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisstofnanir þurfa að skipuleggja starfsemi sína fram í tímann, bæði til að nýta skurðstofur og mannafla sem best og til að forgangsraða og tryggja að þeir einstaklingar sem eru í brýnustu þörfinni fái fyrstir þjónustu. Einnig þurfa sjúklingar oft tíma til að gera ráðstafanir áður en þeir geta gengist undir skurðaðgerð. Það er þó einnig ljóst að bið getur orðið óásættanlega löng. Embætti landlæknis hefur því sett þessi viðmiðunarmörk um hvað getur talist ásættanleg bið. Þau viðmið byggja á sams konar viðmiðum og hjá nágrannalöndum okkar varðandi aðgengi að þjónustu. Til að mynda er miðað við að 80% einstaklinga komist í aðgerðir innan 90 daga frá greiningu. Embætti landlæknis kallar reglulega eftir gögnum varðandi bið eftir völdum skurðaðgerðum og er slíkt eftirlit í samræmi við lögbundna eftirlitsskyldu embættisins við heilbrigðisþjónustu. Það eru auðvitað ýmsir þættir sem geta haft áhrif á afkastagetu sjúkrahúsa og þessa bið eftir skurðaðgerðum en nærtækasta skýringin á aukinni bið á síðustu misserum er að sjúkrahúsin hafa neyðst til að forgangsraða öðrum verkefnum og því hafa minna aðkallandi aðgerðir þurfti að víkja í starfsemi stofnana fyrir öðrum bráðveikum sjúklingnum. Því miður hefur bið eftir sumum aðgerðaflokkum verið lengri en viðmið embættis landlæknis gera ráð fyrir. Því hefur í gegnum tíðina sérstöku fjármagni verið varið í það verkefni að vinna niður biðlista í þeim aðgerðaflokkum þar sem þörfin hefur verið mest og biðtíminn hvað lengstur.

Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra hyggist fela einkaaðilum í auknum mæli framkvæmd þessarar aðgerðaflokka sem hér eru til umfjöllunar. Einfalda svarið mitt við þessari spurningu er já. Ég hef lagt í það þó nokkra vinnu. Ég skal viðurkenna það hér að ég hélt að þetta yrði einfaldara mál þar sem það hefur lengst í biðlistanum. Þarna speglast ekki síst mönnunarvandi í heilbrigðisþjónustu. Við höfum falið sjúkrahúsunum þessar aðgerðir þar sem er þörf á sérþekkingu og skurðstofum. Við höfum þó hér útvistað verkefnum í augasteinsaðgerðum og það stendur til. Við þurfum að gera þetta í samvinnu við sjúkrahúsin og Klíníkin getur gert liðskiptaaðgerðir hérna. En það blasir við að þetta þarf að vera í samvinnu þessara aðila til þess að það sé sanngirni í því hvernig við vinnum úr biðlistunum vegna þess að það er mjög misjafnt. Það er komin út mjög góð skýrsla, gæðaskýrsla, um það hverjir þurfa bæði það sem snýr að styrkingarþætti fyrir aðgerðir og endurhæfingu eftir aðgerð og svo eru það þau viðmið í biðtíma sem við þurfum að hafa í huga. Ég er orðinn nokkuð bjartsýnn á að það takist að vinna úr þessum biðlista og ná samningum þar sem við nýtum allan mannskapinn hvað best.

Raunmyndin er bara þessi að ef mig myndi bresta þolinmæði og ég hefði samband beint við Sjúkratryggingar og segði: Ég get ekki beðið lengur. Nú skaltu bara semja um allan þennan biðlista við til að mynda Klíníkina í liðskiptaaðgerðum — þá er auðvitað hætta á að það fari mannskapur með. Þannig að við þurfum eiginlega í öllu tilliti að huga að því að við nýtum mannskapinn rétt. Það er annað, við ætlum líka sjúkrahúsunum, eins og Landspítalanum, að þjálfa mannskap þegar við erum að mennta sérfræðingana okkar og þá þarf að passa upp á að það séu allar aðgerðir til staðar til að vinna með. En ég held að við getum nýtt alla aðila í kerfinu miklu skilvirkar en við gerum í dag. (Forseti hringir.) Það er bara nokkuð gott samtal í gangi, bæði milli ráðuneytis og einkaaðila og spítalanna og Sjúkratrygginga um það hvernig við förum að, hvaða leið er best (Forseti hringir.) í átt að því marki.