152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

aukin nýting lífræns úrgangs til áburðar.

492. mál
[17:18]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um aukna nýtingu lífræns úrgangs til áburðar þá vil ég fyrst þakka hv. þingmanni fyrir að setja málið hér á dagskrá. Eins og fram hefur komið er það stefna íslenskra stjórnvalda að draga úr loftslagsáhrifum og ná kolefnishlutleysi ekki síðar en á árinu 2040. Hluti af lausninni er að vinna í anda hringrásarhagkerfisins á öllum sviðum, eins og kemur fram í stefnu umhverfisráðherra í úrgangsmálum fyrir árið 2021–2032 sem bar heitið Í átt að hringrásarhagkerfi og kom út árið 2021. Stýrihópur sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði er að störfum og hefur það hlutverk að vinna að framgangi stefnunnar. Þýðingarmikill hluti hennar er að ná betri árangri við nýtingu á lífrænum úrgangi. Stefnan er að hætta urðun lífræns eða brennanlegs úrgangs á næstu árum, ekki síst til að koma í veg fyrir myndun metans þegar úrgangurinn rotnar við urðunina og veldur skaðlegum loftslagsáhrifum í kjölfarið.

Til viðbótar eru áburðarkaup, eins og kom fram í fyrirspurn hv. þingmanns, stór hluti af rekstrargjöldum bænda. Það skiptir máli að bændur geti dregið sem mest úr notkun tilbúins áburðar, bæði af loftslagslegum- og efnahagslegum orsökum.

Aðstæður á Íslandi eru talsvert frábrugðnar öðrum Evrópuþjóðum hvað varðar möguleika til aukinnar nýtingar á lífrænum áburði. Gróður og jarðvegseyðing hefur leikið okkur grátt en rofið land skortir fyrst og fremst lífræn efni. Með því að minnka sóun og auka nýtingu lífrænna efna til landgræðslu stuðlum við að því líka að styrkja vistkerfi landsins og fáum í kaupbæti jákvæð hagræn áhrif og jákvæð loftslagsáhrif. Flestar þjóðir heims leita lausna í loftslagsmálum. Unnið er að rannsóknum á þessu sviði mjög víða og mikil þróun er að eiga sér stað, t.d. eru komnar í notkun aðferðir við að endurheimta fosfór úr skólpi frá heimilum, þótt það sé enn þá í smáum stíl, og þá er til tækni í Noregi sem minnkar næringarefnatap úr búfjáráburði sem byggir á raforku og leiðir þannig af sér minni þörf fyrir tilbúinn áburð.

Staðan er samt enn sú að efnahagslega er hagkvæmast fyrir landbúnaðinn að kaupa tilbúinn áburð. Aðrar aðferðir eiga enn þá nokkuð í land við að skala sig upp þannig að það verði hagkvæmara að beita þeim á stórum skala, en öðru máli gegnir um nýtingu lífræns áburðar til landgræðslu. Til skemmri tíma virðist hægt að auka nýtingu umtalsvert og notkun lífræns áburðar til landgræðslu hefur raunar sexfaldast á árunum 2015–2021. Nýting á lífrænu hráefni til framleiðslu á áburði á stórum skala kallar á auknar rannsóknir, nýsköpun, skipulag og uppbyggingu innviða. Þá þarf að huga að söfnun, flutningi og dreifingu, kalla þarf til samstarfs við sveitarfélög, framleiðendur, frumkvöðlafyrirtæki og þjónustuaðila, svo aðeins fátt eitt sé nefnt. Það þarf að setja fram markmið, mögulegar sviðsmyndir og móta beinskeytta og trúverðuga áætlun og leiðir til að raungera hana. Þess ber að geta að ef verð á áburði, jarðefnaeldsneyti og öðrum aðföngum heldur áfram að hækka, eins og við höfum séð í kjölfar heimsfaraldurs og nú stríðsátaka, þá kann það að breyta þessari mynd sem og sú staðreynd að loftslagsvandinn verður sífellt alvarlegri og meira aðkallandi. Mögulega verða nýjar aðferðir efnahagslega hagkvæmari en þær gömlu innan tíðar þannig að það er mikilvægt að halda samhengi í þeirri umræðu.

Til að vinna að framgangi þessa máls og með hliðsjón af stefnu hringrásarhagkerfisins og í samræmi við loftslagsstefnuna þá hef ég ákveðið að fá ráðgjafa til að vinna að gerð vegvísis um nýtingu á lífrænum efnum. Sú vinna verður unnin í nánu samstarfi við ráðuneyti og stofnanir, stýrihóp um framkvæmd hringrásarhagkerfisins og aðra haghafa. Þessi vegvísir þarf að varða veginn að því hvernig settum markmiðum verður náð og þar þarf að setja fram áætlun sem inniheldur m.a. mat á núverandi ástandi, greiningu á tækifærum og forgangsröðun þeirra og framsetningu sviðsmynda. Það mætti skipta þessu verkefni í tvo hluta þar sem fyrri fasinn er þá undirbúningur, markmiðasetning, gagnasöfnun, greiningar, þróun sviðsmynda o.s.frv., og síðan seinni fasinn þar sem skipulagt samstarf við hagaðila er hafið um útfærslu á vegvísinum, þá við stofnanir, stýrihóp um hringrásarhagkerfið, sveitarfélög, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Bændasamtökin, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Sorpu, Hreinsitækni o.s.frv. Þannig að tækifærin eru ótal mörg, gríðarlega mikið af sprotum í vexti á þessu sviði en mikilvægt er að stilla þessa strengi saman og það er hafið.