Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

áfengislög.

135. mál
[16:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af þessari ræðu er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn mun verða mikill þrándur í götu þegar netverslunarfrumvarp kemur frá dómsmálaráðherra. Það er líka ljóst að Framsókn ætlar að standa í vegi fyrir því að fá vín í búðir. Það er alveg ljóst af þessari ræðu. Samt er það búið að vera þannig á undanförnum árum að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur farið yfir í að verða Vínbúðin, yfir í að auka aðgengi, meðan yfirlýst markmið ríkisins hefur verið fram til þessa að ÁTVR, Vínbúðin, eigi að vera til staðar til þess að hafa hemil á fólki, að hafa aga á fólki og vera ekki að treysta fólki of mikið. Ég einfaldlega treysti fólki til þess að ráða sér sjálft. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að ganga alla leið og setja vín í búðir. Ég verð að segja að ef við skoðum þróunina á umliðnum árum, ef við skoðum bara rannsóknir frá 1991 frá Rannsóknum og greiningu til ársins í dag, þegar höftin voru meiri, bjór var rétt að byrja, þá var áfengisneysla miklu meiri. Hvað hefur gerst? Með auknum forvörnum og fræðslu eru íslensk ungmenni, sem voru með mestu neyslu innan OECD, núna komin í þá minnstu, út af forvörnum, út af fræðslu. Samt hefur aðgengi að áfengi aukist með árunum, með tilkomu frábærra matsölustaða auðvitað en líka því að Vínbúðin er komin víða úti á landi, víða bara með barnavöruverslunum og fleira sem hliðarbúskap. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er ekki nokkur von til þess að við fáum að sjá glitta í eitthvað opið, einhvern opinn faðm Framsóknar þegar kemur að því að treysta fólki í þessum efnum?