132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjármálaeftirlit.

556. mál
[15:12]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er spurning sem vakir í hugskoti mínu eftir þessa ræðu. Hver er það sem getur beint því til Fjármálaeftirlitsins að rannsaka meint brot ef upp koma þær aðstæður að Fjármálaeftirlitið gerir það ekki? Er það enginn? Ég spyr vegna þess að í dag er ákvæði í lögunum sem felur í sér ákveðna leið fyrir hæstv. ráðherra til að tjá sig a.m.k. um afstöðu sína í slíkum málum. Hins vegar er lagt til að það ákvæði verði tekið út með þessu frumvarpi.

Í 2. mgr. 12. gr. núgildandi laga segir að Fjármálaeftirlitið hafi skyldu til að láta viðskiptaráðherra eða eftir atvikum annan ráðherra tafarlaust vita um fyrirhugaðar aðgerðir. Hver er ástæðan fyrir þessu ákvæði? Hún hlýtur að vera sú að gefa ráðherra tækifæri til að segja sitt álit á þeim aðgerðum sem á að grípa til. Þá hlýtur að mega gagnálykta að ráðherrann hafi líka lagalegan rétt, hugsanlega skyldu til að tjá sig um aðgerðaleysi Fjármálaeftirlitsins.

Samkvæmt þessu hefur hæstv. ráðherra t.d. haft lagalegan rétt til að tjá sig við Fjármálaeftirlitið um það hvort hún teldi að eftirlitið hefði átt að grípa til aðgerða vegna hugsanlega rangra upplýsinga um eignarhlut þýsks banka í Búnaðarbankanum þegar hann var einkavæddur. Þetta ákvæði er enn þá í gildi þangað til þetta frumvarp verður samþykkt. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Af hverju fylgdi hún ekki lögunum? Af hverju notfærði hún sér ekki rétt þessa ákvæðis til að óska a.m.k. eftir því að fá að láta Fjármálaeftirlitið vita um afstöðu sína til þess hvort hún teldi að nauðsynlegt væri að rannsaka þetta? Er svarið hugsanlega það að hún einfaldlega telur að ekkert sé athugavert við það mál?