132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Skattaumhverfi líknarfélaga.

547. mál
[16:08]
Hlusta

Flm. (Sandra Franks) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu á þskj. 795 um skattfrelsi líknarfélaga, sem ég flyt með nokkrum hv. þingmönnum Samfylkingarinnar. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að undirbúa breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt með það fyrir augum að jafna skattalega aðstöðu líknarfélaga hér á landi miðað við önnur Evrópulönd og Bandaríkin, einkum með áherslu á afnám fjármagnstekjuskatts. Jafnframt skal kannað hvort nauðsynlegt sé að gera aðrar breytingar til að jafna aðstöðu íslenskra líknarfélaga miðað við sambærileg félög erlendis. Stefnt skal að því að ráðherra leggi frumvarp um málið fyrir Alþingi við upphaf næsta þings.

Ástæðan fyrir því að þessi tillaga er flutt er sú, virðulegi forseti, að þrátt fyrir góðan vilja stjórnvalda í garð líknarfélaga og frjálsra félagasamtaka er það staðreynd að íslensk líknarfélög búa ekki í skattalegu tilliti við sama skilning eða örlæti af hálfu stjórnvalda og líknarfélög í Evrópu og Bandaríkjunum. Þetta er rakið ákaflega vel í vandaðri skýrslu sem unnin var fyrir nokkrum missirum fyrir hönd nokkurra íslenskra líknarsamtaka sem starfa bæði hér innan lands og utan eins og lesa má í greinargerðinni með tillögu okkar.

Raunar er það svo að heldur hefur sigið á ógæfuhliðina í þessum efnum vegna lagabreytinga síðasta áratuginn. Munurinn á skattaumhverfi íslensku líknarfélaganna í samanburði við líknarfélög í Evrópu og Bandaríkjunum er töluverður samkvæmt niðurstöðu skýrslunnar. Það má segja að hann kristallist í fernu. Í fyrsta lagi njóta íslensk líknarfélög ekki undanþágu frá greiðslu fjármagnstekjuskatts. Í bæði Bandaríkjunum og löndum Evrópusambandsins eru þau hins vegar undanþegin fjármagnstekjuskatti.

Í öðru lagi var með breytingum á lögum árið 2004 afnumin undanþága til þeirra vegna greiðslu á erfðafjárskatti. Það ber að taka fram að þær breytingar leiddu til verulegrar lækkunar á erfðafjárskatti sem nú er einungis 5% og ákveðið frítekjumark að auki. En dánargjafir til líknarfélaga njóta engrar sérstakrar undanþágu umfram aðra. Þessu er þveröfugt farið í löndum Evrópusambandsins og Bandaríkjunum. Því samkvæmt úttekt Jónasar Guðmundssonar hagfræðings, sem vann fyrrgreinda skýrslu, er enginn erfðafjárskattur greiddur af slíkum framlögum í þeim löndum til líknarfélaga.

Það er almennt litið svo á að undanþága frá greiðslu erfðafjárskatts hvetji fólk til að láta hluta af eigum sínum renna til mannúðarmála og örvi þannig starfsemi þeirra en um leið sé líka verið að taka ákveðna byrði af skattborgurunum sem líknarfélögin taka í staðinn á sig í gegnum framlag sitt með þjónustu.

Í þriðja lagi hafa íslensk líknarfélög heldur ekki lagalegan rétt til endurgreiðslu á virðisaukaskatti á aðföngum. Þau njóta hins vegar slíkra skattfríðinda, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Í fjórða lagi búa íslensk líknarfélög einnig við lakari starfsumhverfi en erlend líknarfélög að því leyti að hér á landi er ekki heimilt að draga gjafir til góðgerðafélaga frá skattskyldum tekjum í sama mæli og yfirleitt er heimilt bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Í dag geta lögaðilar dregið frá skattstofni sínum einstaka gjafir og framlög til viðurkenndra líknarstarfsemi allt að 0,5% af tekjum á því ári sem gjöf er afhent. Einstaklingar hér á landi hafa hins vegar enga möguleika á að draga frá tekjuskattsstofni þau framlög sem þeir láta renna til líknarfélaga og góðgerðamála. Það er athyglisvert í landi allsnægtanna að Ísland var eina landið sem fannst í fyrrnefndri úttekt þar sem einstaklingur er ekki örvaður með skattaívilnun til að greiða til líknarfélaga. Það má því fullyrða að íslensk líknarfélög búi við töluvert erfiðari skattaumhverfi en sams konar félög í löndum Evrópu og Bandaríkjanna. Þau njóta alls ekki sama skattfrelsis og sambærileg félög sem þar starfa.

Nú vil ég segja það alveg skýrt að stjórnvöld hafa með ýmsu móti sýnt jákvæða afstöðu til líknarfélaga en breytingar sem orðið hafa á frumkvæði þeirra á síðustu árum á skattalögum hafa leitt til að skattastaða þeirra og reyndar frjálsra félagasamtaka hefur farið versnandi á Íslandi. Til marks um það nefni ég ákvörðun Alþingis frá 1996 um að frjáls félagasamtök skyldu greiða fjármagnstekjuskatt og fyrrgreinda breytingu árið 2004 um að erfðafjárskattur skyldi lagður á gjafir til líknarfélaga. Töluvert áður, eða árið 1979, var svo afnumin heimild til skattafrádráttar einstaklinga vegna framlaga til góðgerðafélaga. En fram til ársins 1979 gátu gefendur, bæði fyrirtæki og einstaklingar, dregið gjafir sínar til slíkra félaga frá skattskyldum tekjum sínum og þannig lækkað skattstofn sinn. Í tekju- og eignarskattslögum var nefnilega fyrir þann tíma ákvæði sem heimilaði að gjafir til líknarfélaga mætti draga frá allt að 10% skattskyldra tekna gefanda. Þetta ákvæði náði reyndar til miklu fleiri félaga en hreinna líknarfélaga og líklegt að það hafi verið töluvert of rúmt og því of kostnaðarsamt fyrir ríkið.

Í þessari þingsályktunartillögu er því lagt til að fjármálaráðherra beiti sér fyrir lagabreytingu sem miði að því að gera skattalegt umhverfi líknarfélaga hér á landi sem sambærilegast við þau lönd sem Íslendingar miða sig oftast við. Ég hef sjálf mikla persónulega reynslu af störfum fyrir líknarfélög en ég hef í áratug starfað í ýmsum stjórnum félaga sem styðja hjartveik börn. Ég veit því af eigin raun að fyrir líknarfélög er langmikilvægast að ákvæði um fjármagnstekjuskatt verði breytt þannig að varðandi hann njóti þau sömu skattfríðinda og erlend félög í sínum heimalöndum. Af þeirri ástæðu, virðulegi forseti, er í þingsályktunartillögunni lögð sérstaklega þung áhersla á undanþágu vegna greiðslu fjármagnstekjuskatts.

Það er svolítið erfitt að átta sig nákvæmlega á hversu mörg líknarfélög mundu njóta góðs af samþykkt þessarar tillögu. Á skrá Hagstofunnar eru þau tekin saman í lið með fleiri samtökum en samkvæmt upplýsingum úr fyrrgreindri skýrslu Jónasar Guðmundssonar eru líklega starfandi á annað hundrað líknarfélög, eða deildir í líknarfélögum, sem kynnu að njóta góðs af slíkri skattbreytingu. Það er líka erfitt að áætla fyrir fram hversu mikill kostnaður fyrir ríkissjóð gæti fylgt samþykkt hennar þar sem lagt er í hendur fjármálaráðherra að leggja fram frumvarp um umfang skattbreytinganna. Hins vegar má ætla að langmestur hluti kostnaðarins muni stafa af breytingum á greiðslu líknarfélaga á fjármagnstekjuskatti. Upplýsingar um hversu mikið líknarfélög greiða í slíkan skatt í dag liggja ekki fyrir. Ég hef hins vegar lagt fram skriflega fyrirspurn til fjármálaráðherra um það sem gera má ráð fyrir að nýtist við umfjöllun málsins í þingnefnd.

Ég held, virðulegi forseti, að langflestir séu sammála um að líknarfélög vinni margvísleg þjóðþrifaverk sem falla undir mikilvæga samfélagsþjónustu. Þau sinna margbrotnum verkefnum á sviði félags- og heilbrigðismála, aðstoðar við fátæka, ýmiss konar liðsinni við unga og aldraða einstaklinga, og við þróunarhjálp erlendis. Starfsemi þeirra beinist yfirleitt að því að draga úr vanda einstaklinga, svo sem vegna fátæktar, tímabundins eða varanlegs sjúkleika eða fötlunar, langvarandi erfiðleika barna, óhóflegrar neyslu vímugjafa og áfengis, auk margs annars. Nokkur þeirra starfa einnig að mikilvægum heilbrigðisrannsóknum sem hafa sannarlega skilað ómældum árangri í baráttunni gegn sjúkdómum. Engum blandast hugur um að þau ýta undir velferð og hagsæld samfélagsins með því að hlúa að einstaklingum og hópum sem af einhverjum orsökum eiga undir högg að sækja. Í hnotskurn má því segja að líknarfélög stuðli að meiri vernd þeirra sem minna mega sín í samfélaginu.

Allt samfélagið hefur augljósan hag af starfi líknarfélaga. Þau starfa af hugsjónaástæðum og að stórum hluta er þeim haldið uppi með vinnu fórnfúsra sjálfboðaliða. Starf líknarfélaganna má skilgreina sem grenndarstarf í þeim skilningi að þau vinna á vettvangi vandamálanna sem þau glíma við. Þetta tvennt veldur því að þau eru að ýmsu leyti hæfari en opinberar stofnanir til að greiða úr ýmiss konar samfélagslegum vandamálum. Margir fræðimenn hafa fært rök fyrir því að frjáls félagasamtök séu betur til þess fallin að vinna ýmiss konar líknarstörf en opinber stjórnvöld, þau séu úrræðabetri í leit að lausnum og nýti fjármagn með betri hætti. Samkeppni þeirra um stuðning frá fyrirtækjum og einstaklingum ýti jafnframt undir frumkvæði og nýja hugsun í starfi.

Fátt bendir til annars en að hlutverk líknarfélaga muni fara vaxandi í samfélaginu. Almennt er viðurkennt að þau vinni að verðugum félagslegum verkefnum, sem opinberar stofnanir þyrftu annars að sinna og verja til þess meira af fjármagni skattborgaranna en ella. Það er því skoðun flutningsmanna að æskilegt væri að frjáls líknarsamtök og góðgerðarsamtök tækju að sér enn viðameira hlutverk í samfélaginu í framtíðinni. Í því ljósi er einkar nauðsynlegt að bæta skattalegt umhverfi þeirra. Um leið yrði líka sköpuð aukin hvatning til að einstaklingar og félagasamtök leggi meira af mörkum til þeirra.

Bæði hér á landi og annars staðar hafa stjórnvöld viðurkennt í verki samfélagslegt mikilvægi góðgerðasamtaka og líknarfélaga með því að samþykkja fyrir þau sérstakar örvandi skattareglur fyrir þau. Skattundanþágur hér á landi, t.d. varðandi greiðslu tekju- og eignarskatts, eru að mörgu leyti sambærilegar við lönd í Evrópu og í Ameríku. Í því birtist jákvæður skilningur stjórnvalda hér á landi á því mikilvæga samfélagslega hlutverki sem líknarsamtök gegna. Eins og ég hef rakið í þessari ræðu skortir töluvert á, einkum varðandi skyldur líknarfélaga til að greiða fjármagnstekjuskatt, að starfsumhverfi þeirra sé sambærilegt við það sem líknarfélög í Evrópu og Ameríku starfa við.

Eins og ég sagði hef ég um árabil tekið þátt í félagsstarfi á vegum samtaka hjartveikra barna og þekki af eigin raun að fjármagnstekjuskattur á vaxtatekjur líknarfélaga nemur umtalsverðum upphæðum hjá mörgum félögum. Má nefna að styrktarsjóður hjartveikra barna, þar sem ég hef setið í stjórn, hefur á sl. fimm árum samtals greitt um 1.700 þús. kr. í fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum. Það er biti sem rífur í og nægði til að styrkja fjórar fjölskyldur hjartveikra barna um ríflega 400 þús. kr. Mér finnst óneitanlega skjóta skökku við að frjáls félagasamtök sem með söfnun og sjálfboðaliðastarfi létta á útgjöldum ríkisins skuli þurfa að greiða háar upphæðir í skatta af vaxtatekjum. Þess vegna legg ég, virðulegi forseti, ásamt nokkrum öðrum hv. þingmönnum, fram þessa þingsályktunartillögu en markmið hennar er að skapa jákvæðara starfsumhverfi fyrir íslensk líknarfélög.

Ég legg svo til að tillögunni verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.